Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, hefur fyrirskipað Ísraelsher að ráðast á ákveðin skotmörk á Gasa eftir að þremur eldflaugum var skotið á bæinn Beersheva í Ísrael fyrr í dag. Þetta kemur fram á fréttavef Reuters sem hefur þetta eftir talsmanni ísraelsku ríkisstjórnarinnar.
Samið var um sólarhrings framlengingu á umsömdu vopnahléii í gærkvöldi en svo virðist sem það hafi nú runnið út í sandinn.
Egyptar hafa haft milligöngu í friðarviðræðum Ísraela og Palestínumanna og höfðu þeir reynt að ná saman um varanlegt samkomulag áður en umsamið vopnahlé rynni út.
Í frétt BBC segir að 2.016 Palestínumenn og 66 Ísraelar hafi látið lífið í loft- og eldflaugaárásum frá því að Ísraelsher hóf hernaðaraðgerð sína á Gasa þann 8. júlí síðastliðinn.

