Lífið

Pong spilaður á ljósahjálmi Hörpu

Bjarki Ármannsson skrifar
Spennandi verður að sjá hver útkoman verður.
Spennandi verður að sjá hver útkoman verður. Vísir/Aðsend/Stefán
Borgarbúum býðst að spila tölvuleikinn sígilda Pong á ljósahjálmi Hörpu vikunna 23. til 31. ágúst, frá menningarnótt og til loka Reykjavík Dance Festival. Um er að ræða nýtt listaverk eftir Atla Bollason og Owen Hindley.

Í tilkynningu segir að þetta sé í fyrsta sinn sem Ólafur Elíasson, hönnuður glerhjúps Hörpu, leyfir öðrum listamönnum að eiga við ljósin í hjúpnum.

Hver sem spila vill leikinn sígilda kemur sér fyrir á Arnarhóli með gott útsýni yfir Hörpu og notar snjallsíma til að stýra spöðunum í gegnum sérstakt þráðlaust net sem komið hefur verið fyrir. Listamenn munu sjá spilurum fyrir símum þegar leikurinn verður fyrst kynntur á menningarnótt en vikuna á eftir mun hver sem er geta mætt með eigin síma og spilað frá klukkan hálftíu.

„Pong markar upphaf tölvuleikjaaldarinnar,“ segir Atli Bollason í tilkynningu. „Smátt og smátt hafa tölvuleikir orðið að táknmynd fyrir andfélagslega hegðun í nútímanum; þeir eru leikrými þess sem fer aldrei út og hittir ekki neinn. Það er kannski þröng og úrelt sýn á heim tölvuleikjanna en mér þótti áhugavert að setja tölvuleiki aftur inn í almannarýmið. Í viku verður hafnarbakkinn að leiktækjasal undir berum himni þar sem fólk getur keppt hvort við annað í eigin persónu.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×