Innlent

„Í raun bara skítamix sem á ekki að líðast í okkar lýðræði“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Birgitta Jónsdóttir og Hanna Birna Kristjánsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir og Hanna Birna Kristjánsdóttir. visir/valli/stefán
„Við finnum fyrir því út í samfélaginu að þetta hefur skaðað mjög trúverðugleikann á stjórnsýslunni hjá okkur,“ segir Birgitta Jónsdóttir, formaður Pírata, í stamtali við fréttastofu 365.

Píratar hafa sent frá sér tilkynningu þar sem kemur fram að flokkurinn hyggst leggja fram tillögu um vantraust á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra.

Fram kemur í tilkynningunni frá Pírötum að ljóst sé að ráðherra sé vanhæf og rúin trausti. Alþingi kemur saman á ný þann 9. september.

„Okkur finnst viðbrögðin úr hennar ráðuneyti og frá hennar hendi bæði of lítil og of sein.“

Birgitta segir að þingmenn Pírata hafi í raun ekki rætt málið við aðra þingmenn stjórnarandstöðunnar.

„Málið var aðeins rætt fyrir þinglok, hvort það væri tilefni fyrir slíkri tillögu. Við vildum bíða og sjá hvernig þetta mál myndi þróast og núna höfum við verið að taka saman efni sem sýnir ákveðið misræmi í svörum frá ráðherranum. Við erum ekki að leggja þetta fram bara af gamni okkar,“ segir Birgitta sem bendir ennfremur á að flokkurinn geti einfaldlega ekki treyst ráðherranum.

„Þó svo að hún vilji vera leyst frá ákveðnum skyldum þá finnst okkur það í raun bara skítamix sem á ekki að líðast í okkar lýðræði.“


Tengdar fréttir

Ráðherra biðst undan dómsmálum

Innanríkisráðherra hefur farið fram á að vera leystur undan skyldum sínum sem ráðherra dómsmála meðan ákæra gegn Gísla Frey Valdórssyni er til meðferðar hjá dómstólum.

„Ég tel að Hanna Birna komist í gegnum þetta mál"

„Augljóslega er þetta mjög óþægileg staða fyrir ráðherra en mér finnst hún hafa brugðist vel við,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, í samtali við Sigurjón M. Egilsson í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni.

Ráðherra getur verið sóttur til saka

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, ætlar að segja sig frá málefnum sem hafa með ákæruvald og dómstóla að gera, meðan dómsmál stendur yfir gegn aðstoðarmanni hennar, Gísla Frey Valdórssyni.

Hanna Birna þarf að svara í dag

Í dag rennur út frestur innanríkisráðherra til að svara fyrirspurnum Umboðsmanns Alþingis í tengslum við lekamálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×