Guðmundur Sverrisson endaði í neðsta sæti með Svíanum Kim Amb í B-riðli undankeppninnar í spjótkasti á EM í Zurich í dag.
Öll þrjú köst Guðmunds voru ógild og kemst hann því ekki í úrslitin. Guðmundur virtist ná fínu kasti í annarri tilraun en missti jafnvægið á síðustu stundu, setti hendurnar fram fyrir línuna og var kastið dæmt ógilt.
Kasta þurfti 81,00 metra eða lengra til þess að komast í úrslitin og fékk hver keppandi þrjú köst hver í undankeppninni. Besta kast Guðmundar er 80,66 metrar en því náði hann á Meistaramóti Íslands á síðasta ári.
