Íslenski boltinn

Ekki útilokað að Margrét Lára verði með

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Margrét Lára hefur skorað flest mörk allra fyrir A-landslið kvenna í fótbolta.
Margrét Lára hefur skorað flest mörk allra fyrir A-landslið kvenna í fótbolta. Vísir/Getty
Ísland tekur á móti Danmörku í undankeppni HM 2015 á Laugardalsvellinum 21. ágúst.

Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, tilkynnti í dag hópinn fyrir leikinn gegn Dönum. Guðbjörg Gunnarsdóttir og Sif Atladóttir eru ekki í hópnum vegna meiðsla og þá verður Mist Edvarsdóttir ekki með sökum veikinda.

Tveir nýliðar eru í hópnum; Arna Sif Ásgrímsdóttir fyrirliði Þórs/KA og Sonný Lára Þráinsdóttir, markvörður Breiðabliks.

Margrét Lára Viðarsdóttir, markahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi, eignaðist nýverið sitt fyrsta barn og er, eins og staðan er nú, ekki samningsbundin neinu liði. Þrátt fyrir það segir Freyr ekki loku fyrir það skotið að Margrét verði með í undankeppninni.

„Það eru bara sjö vikur síðan hún átti barnið og hún er í fínu standi og hugsar vel um sig,“ sagði Freyr í samtali við Vísi nú rétt í þessu.

„En hún er ekki byrjuð æfa né spila með neinu félagsliði, þannig að það er mjög ólíklegt að hún verði með í leikjunum í september,“ bætti Freyr við, en Ísland mætir Ísrael og Serbíu 13. og 17. september á Laugardalsvelli í tveimur síðustu leikjum sínum í undankeppninni.

Komist Ísland í umspil er ekki útilokað að Margrét verði með í þeim leikjum.

„Mögulega, ef við komumst í umspil, á hún möguleika á því að komast í hópinn ef hún er byrjuð að spila. Tíminn verður að leiða það í ljós,“ sagði Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, að lokum.

Margrét Lára var síðast á mála hjá Kristianstad í Svíþjóð, en tímabilið 2013 var hún í 3.-4. sæti yfir markahæstu leikmenn sænsku úrvalsdeildarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×