Lífið

Ísland í dag í kvöld: Nauðsynlegt að deila minningum með börnunum

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Ljónshjarta er nýtt félag sem stofnað var í þeim tilgangi að styðja við bakið á fólki sem hefur misst maka sinn og börnum sem hafa misst foreldri.

Ína Lóa Sigurðardóttir, formaður félagsins, segir lítið rætt um dauðann. „Dauðinn er náttúrulega tabú í samfélaginu. Það er eins og ef við minnumst á hann eða minnumst ekki á hann þá kemur hann ekki, en það er bara ekki þannig," segir hún en frekari upplýsingar um Ljónshjarta má fá á heimasíðu félagsins.

Sjálf hefur Ína reynslu af því að missa maka en maðurinn hennar lést fyrir um tveimur árum síðan og er hún á því að fólk þurfi að vera opið þegar kemur að umræðunni.

Þegar foreldri deyr hefur það mikil áhrif á líf barna. Gísli Kristbjörn Björnsson, stjórnarmaður í Ljónshjarta, missti konuna sína fyrir um þremur árum. Þegar hún lést var hún ófrísk af tvíburadætrum hjónanna og var komin um átta mánuði á leið. Náðist að bjarga litlu stúlkunum en önnur þeirra lést viku eftir að hún kom í heiminn. Gísla finnst mikilvægt að þeir sem eru í kringum börn sem hafa misst foreldri hlusti og taki þátt þegar börnin opna á umræðu um hinn látna, „þá eru þau að deila minningum og við viljum að minnsta kosti reyna að leggja okkar af mörkum til þess að þau geti gert það.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.