Íslenski boltinn

Stjörnumenn halda áfram að semja við ungu strákana sína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þorri Geir Rúnarsson.
Þorri Geir Rúnarsson. Mynd/Stjarnan
Stjörnumenn hafa mikla trú á árganginum sem skilaði félaginu Íslandsmeistaratitli í 2. flokki karla í fótbolta í fyrra og Þorri Geir Rúnarsson er fjórði leikmaðurinn úr þessum árangi sem fær nýjan samning.

Stjörnumenn sendu frá sér fréttatilkynningu í dag þar sem að kemur fram að hinn 19 ára gamli miðjumaður Þorri Geir Rúnarsson hafi gert nýjan samning við félagið til ársins 2017.

„Þorri Geir er gríðarlega efnilegur miðjumaður og Stjarnan hefur mikla trú á að hann verði einn af lykilmönnum félagsins í náinni framtíð. Þorri Geir  sem er aðeins 19 ára hefur komið við sögu í 9 leikjum í sumar og staðið sig mjög vel, þá spilaði hann sinn fyrsta Evrópuleik í síðustu viku gegn Lech Poznan," segir í fréttatilkynningunni frá Stjörnunni.

Þorri Geir er fjórði ungi leikmaðurinn sem hefur framlengt samning sinn við félagið en áður höfðu Sveinn Sigurður Jóhannesson markmaður, Atli Freyr Ottesen og Aron Rúnarsson Heiðdal allir skrifað undir samning við félagið. Allir þessir leikmenn eru hluti af sigursælum árgangi í yngri flokkum en þeir urðu til að mynd Íslandsmeistarar í 2. flokki í fyrra og eru á toppnum í dag.

Stjarnan er í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn í Pepsi-deild karla og hefur ekki tapað deildarleik í allt sumar. Stjarnan er einnig komið í umspil um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar þar sem liðið mætir ítalska stórliðinu Internazionale frá Mílanó.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×