Erlent

IS-liðar hóta árás á Bandaríkin

Atli Ísleifsson skrifar
Fjöldi Jasída hafa verið drepnir af vígamönnum IS-samtakanna.
Fjöldi Jasída hafa verið drepnir af vígamönnum IS-samtakanna. Vísir/AFP
Íslömsku samtökin IS hafa hótað því að ráðast á Bandaríkín eftir loftárásir Bandaríkjahers í norðurhluta Íraks á föstudaginn.

Á vefsíðunni Site segir að í fjölda Twitter-færslna frá aðilum tengdum IS sé því hótað að endurvekja hryðjuverkasellur á Vesturlöndum vegna árása föstudagsins.

Í einni færslu, sem kemur frá notanda sem lýsir sér sem herstjórnarfræðingi á vegum IS, birtir hann mynd af nyrðri Tvíburaturninum í New York í ljósum logum þar sem farþegaþota United Airlines er á leið á syðri turninn. Með myndinni fylgir texti um að brátt verði gerð ný árás á Bandaríkin, „ef guð lofar“.

Undir merkinu #AmessagefromISIStoUS kemur fram fjöldi hótana gegn Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra.

Bandarískar orrustuþotur réðust á stórskotalið íslamista í útjaðri Erbil, helstu borgar Kúrda í norðurhluta Íraks á föstudag og laugardag. Segir Barack Obama Bandaríkjaforseti að árásirnar hafi verið gerðar til að stöðva þjóðarmorð á hundruð þúsundum kristinna og öðrum trúarlegum minnihlutahópum.

Í frétt Dagens Nyheter segir að ráðherra mannréttindamála í Írak hafi á sunnudaginn sagt að IS-liðar hafi drepið um fimm hundruð Jasída. Sagði hann í samtali við Reuters að hluti þeirra, börn þeirra á meðal, hafi verið grafin lifandi.


Tengdar fréttir

Bretar koma Jasídum til hjálpar

Talið er að allt að 150 þúsund manns séu á svæðinu með litlar sem engar nauðsynlegar birgðir eins og vatn og hlý föt.

Obama heimilar loftárásir í Írak

Barack Obama Bandaríkjaforseti tilkynnti í nótt að hann hefði heimilað loftárásir í Írak gegn íslömsku öfgamönnunum í Isis-hreyfingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×