Íslenski boltinn

Eiður Aron að yfirgefa Eyjamenn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eiður Aron Sigurbjörnsson.
Eiður Aron Sigurbjörnsson. vísir/valli
Eiður Aron Sigurbjörnsson, fyrirliði ÍBV, spilar líklega sinn síðasta leik fyrir Eyjamenn í bili í dag þegar þeir mæta FH í 15. umferð Pepsi-deildar karla.

Miðvörðurinn öflugi er á leið til Sandnes Ulf í norsku úrvalsdeildinni, en fótbolti.net greindi fyrst frá þessu í dag.

„Þetta er ekki 100 prósent klárt, en það kemur betur í ljós í kvöld,“ segir Óskar Örn Ólafsson formaður knattspyrnudeildar ÍBV, við Vísi um málið.

Eyjamenn geta lítið gert í málinu nema þakka Eiði Aroni fyrir vel unnin störf þar sem hann er ekki samningsbundinn ÍBV.

„Hann er bara á láni hjá okkur. Hann verður kallaður úr láni frá Örebro og seldur til Noregs. Það er voðalega lítið sem við getum gert,“ segir Óskar Örn, sem vildi þó ekki staðfesta fréttirnar.

Aðspurður hvort það væru meiri líkur en minni á leikurinn í dag væri kveðjuleikur Eiðs Arons sagði Óskar: „Það eru meiri líkur á því.“

Óskar Örn staðfesti við Vísi að lokum að Eiður Aron er í leikmannahópi ÍBV sem mætir FH klukkan 17.00 á Hásteinsvelli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×