Erlent

Úkraínuforseti segir Rússa hafa ráðist inn í Úkraínu

Atli Ísleifsson skrifar
Petro Pórósjenkó Úkraínuforseti hefur aflýst ferð sinni til Tyrklands vegna ástandsins í austurhluta Úkraínu.
Petro Pórósjenkó Úkraínuforseti hefur aflýst ferð sinni til Tyrklands vegna ástandsins í austurhluta Úkraínu. Vísir/AFP
Petro Pórósjenkó Úkraínuforseti hefur aflýst heimsókn til Tyrklands vegna rússneskra hermanna í austurhluta landsins. Pórósjenkó sagði nauðsynlegt að hann væri í höfuðborginni Kíev vegna versnandi ástands í Donetsk-héraði. „Innrás rússneskra hermanna hefur átt sér stað.“

Pórósjenkó hefur beðið Evrópusambandið um hernaðaraðstoð vegna innrásarinnar.

Alexander Zakharchenko, leiðtogi aðskilnaðarsinna í Úkraínu, fullyrðir að milli þrjú og fjögur þúsund rússneskir hermenn hafi gengið til liðs við aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.

Zakharchenko segir að margir Rússanna séu fyrrverandi hermenn eða núverandi hermenn í leyfi. Zakharchenko greindi frá þessu í samtali við rússneska fjölmiðla í borginni Novoazovsk sem aðskilnaðarsinnar náðu nýverið á sitt vald. Þá hótaði hann því að leggja undir sig borgina Mariupol, mikilvæga hafnarborg við Asovhaf. Ný víglína virðist því hafa myndast í suðausturhluta landsins.

Talsmenn úkraínskra stjórnvalda segja rússneska hermenn hafa haldið yfir landamærin og styðja við bakið á aðskilnaðarsinnum, en rússnesk yfirvöld hafa hafnað slíkum ásökunum.

Í frétt BBC segir að grunur leiki á að Rússar vilji nú beina úkraínskum hersveitum frá borgunum Donetsk og Luhansk og í norðurátt, en Úkraínumenn hafa endurheimt stór svæði úr hönum aðskilnaðarsinna síðustu vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×