Erlent

Móðir bandarísks blaðamanns biðlar til leiðtoga IS

Atli Ísleifsson skrifar
Shirley Sotloff ávarpar al-Baghdadi sem kalífa Ríkis íslams, sem kann að þykja umdeilt.
Shirley Sotloff ávarpar al-Baghdadi sem kalífa Ríkis íslams, sem kann að þykja umdeilt.
Móðir Stevens Sotloff, bandarísks blaðamanns sem er í haldi IS-liða, biðlar til leiðtoga IS um að sleppa syni sínum í myndbandi sem birt var í dag.

Shirley Sotloff ávarpar í myndbandinu Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtoga IS og sjálfskipaðan kalífa múslímaheimsins, og hvetur hann til að nýta völd sín og fylgja fordæmi Múhameðs spámanns líkt og fyrri kalífar og sleppa syni hennar úr haldi.

Hinn 31 ára Steven Sotloff kom fyrir í myndbandinu þar sem bandaríski blaðamaðurinn James Foley var tekinn af lífi fyrr í mánuðinum og var sagt að Sotloff yrði næst tekinn af lífi, breyti Bandaríkjastjórn ekki stefnu sinni í málefnum Miðausturlanda.

„Ég sendi þér Abu Bakr al-Baghdadi al-Quraishi al-Hussaini, kalífa Ríkis íslams, þessi skilaboð. Ég er Shirley Sotloff. Sonur minn Steven er í þínu haldi. Þú, kalífinn, getur veitt honum grið. Ég bið þig um að sleppa barninu mínu,“ segir Shirley í myndbandinu. Athygli vekur að hún ávarpar al-Baghdadi sem kalífa Ríkis íslams, sem kann að þykja umdeilt, en ekkert ríki hefur viðurkennt Ríki íslams.

Í frétt New York Times segir að Steven Sotloff hafi verið rænt í Sýrlandi á síðasta ári þegar hann fjallaði um borgarastyrjöldina þar í landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×