Hópurinn leiðir líkur að því að ferðatími bræðsluvatns frá gosstað að jökuljaðri væri 1 til 1,5 klukkustund og líkleg stærð hlaups væri á bilinu 5.000 til 20.000 rúmmetrar á sekúndu. Frá gosstað niður að Herðubreiðarlindum væri líklegur ferðatími 4,5 klukkustundir, niður að brúnni á Jökulsá við Grímsstaði sjö klukkustundir og niður undir Ásbyrgi um níu klukkustundir.

Vegna frétta af því að allstór svæði umhverfis Jökulsá gætu farið undir vatn ef til stórhlaups kæmi af völdum eldsumbrota, auk þess sem brúm á ánni væri hætta búin telur Vatnavárhópurinn rétt að benda á að hlaup í Jökulsá á Fjöllum hafa verið mjög mismunandi að stærð. Þau hafi verið allt frá forsögulegum hamfaraflóðum, sem mynduðu Jökulsárgljúfur og Ásbyrgi, niður í minniháttar hlaup. Taldar eru þó mjög litlar líkur á gosi sem leiða mundi til hamfarahlaups af stærðinni 100 til 200 þúsund rúmmetrar á sekúndu.
Þrjár aldir eru liðnar frá umtalsverðu hlaupi í ánni. Í sögulegu samhengi eru nefnd dæmi um hlaup í ánni á 15., 17. og 18. öld sem ollu tjóni í Kelduhverfi og Öxarfirði, og eru sum hlaupin sögð hafa náð vestur í Víkingavatn í Kelduhverfi. Nú sé hins vegar landslag á söndunum inn af Axarfirði breytt eftir Kröfluelda á árunum 1975 til 1984 og því líkur á að hlaup sem kæmi í dag myndi fylla í flestar lægðir sem eru á sandinum, til dæmis Skjálftavatn.