Viðskipti innlent

Deilan um DV: Stjórnarformaður vill úttekt á fjárreiðum félagsins

Bjarki Ármannsson skrifar
Deilan um eignarhald DV stendur nú sem hæst.
Deilan um eignarhald DV stendur nú sem hæst. Vísir/Pjetur
Þorsteinn Guðnason, stjórnarformaður DV, hyggst leggja fram tillögu um óháða úttekt á fjárreiðum og rekstri félagsins undanfarin ár og segist hafa haft „áhyggjur af því að að tiltekin öfl hafi óeðlileg áhrif á ritstjórnarstefnu blaðsins.“

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þorsteini en miklar deilur standa nú yfir varðandi eignarhald miðilsins. Nú nýverið hafa Sigurður G. Guðjónsson lögmaður og Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, gefið það í skyn opinberlega að Guðmundur Kristjánsson útgerðarmaður hafi haft áhrif á fréttaflutning DV af útgerð sinni með því að lána Reyni Traustasyni ritstjóra fé til að kaupa hlutafé í félaginu. Þessu neita bæði Guðmundur og Reynir staðfastlega.

Þorsteinn segir sömuleiðis að Reynir miði að því að skapa sér stöðu til að nýverandi stjórn DV sitji áfram óbreytt með „afar ógeðfelldum aðferðum.“ Fresta þurfti fundi yfirstjórnar DV nú á föstudag vegna deilna milli eigenda meirihluta hlutafjár í félaginu og eigenda minnihluta.

Yfirlýsingu Þorsteins má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:

Ég hef um nokkurt skeið setið undir ásökunum um að vera „óvinur undir rúmi“ ritstjóra DV og hyggja á fjandsamlega yfirtöku á blaðinu. Þessar ásakanir hafa verið settar fram af forsvarsmönnum blaðsins, þótt ég hafi fyrir þeirra orð lagt DV ehf til umtalsverða fjármuni á undanförnum mánuðum og misserum til að halda rekstri þess gangandi.

Krafa okkar sem eigum meirihluta í DV ehf. er að fá fulltrúa kjörna í stjórn í samræmi við hlutafjáreign. Brölt Reynis Traustasonar undanfarið miðar að því að skapa sér stöðu, með afar ógeðfelldum aðferðum, til að núverandi stjórn sitji áfram óbreytt. Reynir og þrír aðrir stjórnarmenn eiga saman um 10% hlutafjár en við, sem eigum saman góðan meirhluta í félaginu, eigum einn fulltrúa. Tilraunir Reynis til að taka yfir stjórnina með þessu eru í óþökk eigenda og því fjandsamlegar.

Í harðri umræðu síðustu daga hefur jafnframt verið gefið í skyn að eigendur meirihluta hlutafjár í DV vilji með einhverjum hætti skerða ritstjórnarlegt sjálfstæði blaðsins. Slíkt er fjarri sanni. Ég hef sem stjórnarformaður aldrei skipt mér af einstökum fréttum í blaðinu DV eða á vefnum dv.is.

Á hinn bóginn hef ég um skeið haft áhyggjur af því að tiltekin öfl hafi óeðlileg áhrif á ritstjórnarstefnu blaðsins. Orðrómur þess efnis hefur magnast upp á síðkastið og hefur nú leitt til þess að ásakanir hafa verið settar fram á opinberum vettvangi af Sigurði G. Guðjónssyni hrl og Elliða Vignissyni bæjarstjóra í Vestmannaeyjum.

Ég tel nauðsynlegt að hreinsa blað og vef af öllum ásökunum um óeðlileg áhrif á ritstjórnarstefnu miðilsins sem hefur um áratugaskeið gefið sig út fyrir að vera frjáls og óháður. Ég mun því á framhaldsaðalfundi DV ehf næstkomandi föstudag leggja fram tillögu um óháða úttekt á fjárreiðum og rekstri DV ehf undanfarin ár.

Þetta er ekki síst gert þar sem erfiðlega hefur gengið fyrir hluthafa og stjórnarmenn í DV ehf að fá sjálfsagðar upplýsingar úr rekstri fyrirtækisins. Einfaldar fyrirspurnir hafa legið mánuðum saman án þess að vera svarað af þar til bærum aðilum.

Þá verð ég einnig að geta þess, að í dag bárust mér upplýsingar um að fyrrverandi blaðamaður á DV hyggist setja sig í samband við Fjölmiðlanefnd til að skýra frá sínum þætti varðandi fréttaflutning af málefnum Vinnslustöðvarinnar. 

Það er skylda mín sem ábyrgs stjórnarmanns og blaðinu fyrir bestu að sannleikurinn komi fram í þessu máli.

Þorsteinn Guðnason


Tengdar fréttir

Hafnar ritstjórastöðu hjá DV

Björn Þorláksson, ritstjóri AKV, segir í færslu sinni á Facebook að honum hafi verið boðin staða ritstjóra hjá DV. Þar segir hann jafnframt að hann hafi hafnað tilboðinu.

Blaðamenn DV harma orð Björns Leifssonar

Blaðamenn DV segja orð Björns benda til þess að hann sé gagngert að kaupa hlutabréf í DV til að stuðla að því að nýr ritstjóri verði ráðinn til blaðsins.

Lofar fjörugum aðalfundi DV

Í dag verður aðalfundur hlutafélags DV haldinn, þar sem meðal annars verður kosið í nýja stjórn félagsins

Guðmundur í Brimi ætlar að stefna Elliða

"Elliða Vignissyni bæjarstjóra í Vestmannaeyjum verður stefnt fyrir rógburð og tilraun til að sverta mannorð,“ segir Guðmundur Kristjánsson oft kenndur við Brim í tilkynningu til fréttastofu.

Slagnum um eignarhald DV frestað um eina viku

Reynir Traustason, ritstjóri DV, segir deilur innan eigendahóps DV ehf. hljóta að enda með ósköpum. Hann sakar stjórnarformann félagsins um lögbrot. Sigurður G. Guðjónsson lögmaður gefur lítið fyrir ásakanirnar og segir Reyni hafa stundað bolabrögð á aðalfundi félagsins í gær.

Bíða í von og óvon fyrir utan fundinn

Blaðamenn DV hafa þungar áhyggjur af áhrifum breyts eignarhalds á lífsviðurværi sitt og hafa fjölmennt fyrir utan aðalfund hlutafélags blaðsins sem nú stendur yfir.

Kaupir hlut í DV og vill Reyni út

Laugar ehf. hafa keypt 4,42 prósent hlut í DV ehf. en Laugar eru í eigu Björns Leifssonar oft kenndur við World Class.

Björn Leifsson farinn af fundinum: Vantar undirskrift

Björn Leifsson, eigandi World Class og nýr hluthafi í DV, yfirgaf hluthafafund DV á Hótel Natura um klukkustund eftir að hann hófst þegar það kom í ljós að undirskrift eins eigenda félagsins Catalina ehf., sem Björn keypti á þriðjudag, vantar á kaupsamninginn.

Aðalfundi DV frestað um viku

Aðalfundi útgáfufélags DV var frestað um viku nú síðdegis vegna ágreinings um ársreikninga félagsins.

Reynir reiknar með að hætta á DV á föstudag

Reynir segir um nakta tilraun að ræða til þess að kaupa út tjáningarfrelsið. Með þessu sé Björn að kaupa sér þögn miðilsins, en honum hafi þótt umfjöllun DV um sig óþægileg.

Reynir viðurkennir að hafa fengið lán frá Guðmundi

„Það er rétt að félag í eigu Guðmundar lánaði mér til kaupa á hlutafé rétt eins og Gísli Guðmundsson, kenndur við B&L, veitti slíkt lán sem síðan fór inn í einkahlutafélagið Ólafstún,‟ segir Reynir á fésbókarsíðu sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×