Viðskipti innlent

DV kemur ekki út á morgun

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hallgrímur Thorsteinsson á fundi með blaðamönnum DV í morgun
Hallgrímur Thorsteinsson á fundi með blaðamönnum DV í morgun Vísir/GVA
Hallgrímur Thorsteinsson, ritstjóri DV, segir að útgáfa blaðsins frestist um einn dag. Starfsmannafundi lauk í hádeginu og segir Hallgrímur að starfsmenn séu farnir að leggja drög að blaðinu sem kemur út á miðvikudag.

„Morguninn fór í að reyna að átta sig á stöðunni og þessu umbreytingaskeiði sem er erfitt,“ segir Hallgrímur í samtali við Vísi. „Deilurnar í hluthafahópnum hafa verið erfiðar og margir eru sárir vegna yfirlýsinga og framgöngu sumra stjórnarmanna.“

Hallgrímur segir stjórnarmenn ef til vill ekki átta sig á því að þeir séu í viðkvæmri stöðu sem eigendur DV ehf. Þeir hafi sumir hverjir verið full yfirlýsingarglaðir og talað um hluti af bæði heift og léttúð.

„Ég tek heilshugar undir það að sjálfstæði DV er lífsnauðsynlegt og mér finnst miðillinn ekki hafa átt það skilið hvernig umræðan hefur þróast.“

Aðspurður segist Hallgrímur líta svo á að hann njóti trausts á meðal blaðamanna: „Ég held að menn átti sig á því að ég er utanaðkomandi og á ekki aðild að deilum hluthafanna. Ég er bara að kynnast fólkinu hér og líst vel á, þetta er frábær hópur.“

Hann hefur fulla trú á að það komi svör frá stjórninni í dag sem gætu lagt drög að sáttum. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×