Fótbolti

Eiður Aron skoraði í Íslendingaslag

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eiður Aron spilaði fyrri hluta leiktíðarinnar með ÍBV.
Eiður Aron spilaði fyrri hluta leiktíðarinnar með ÍBV. VÍSIR/STEFÁN
Eiður Aron Sigurbjörnsson var í byrjunarliði Sandnes Ulf ásamt landsliðsmarkverðinum Hannesi Þór Halldórssyni og framherjanum Hannesi Þ. Sigurðssyni í Íslendingaslag gegn Brann í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Eyjamaðurinn tók sig til og skoraði eftir hornspyrnu á 52. mínútu, en því miður fyrir botnliðið tókst Hannesi Þór ekki að halda hreinu.

Birkir Már Sævarsson og félagar í Brann jöfnuðu metin eftir harða hríð að marki gestanna, en varamaðurinn AminAskar skoraði jöfnunarmarkið á 63. mínútu. Birkir kom einnig inn á sem varamaður.

Brann er í 13. sæti af 16 liðum í norsku úrvalsdeildinni með 23 stig, en Sandnes er í botnsætinu með 15 stig, sex stigum frá umspilssæti.

Í Danmörku var Theodór Elmar Bjarnason í byrjunarliði Randers og spilaði allan leikinn í 1-0 sigri á Silkeborg. Randers komst upp í annað sæti deildarinnar með sigrinum. Ögmundur Kristinsson sat á varamannabekk Randers.

Hjálmar Jónsson var einnig á bekknum hjá IFK Gautaborg sem vann stórsigur á Gefle, 4-0. Gautaborgarliðið búið að vinna fjóra af síðustu fimm leikjum sínum og er í fjórða sæti deildarinnar með 41 stig. Skúli Jón Friðgeirsson var ekki í leikmannahópi Gefle.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×