Sport

Spaðinn kominn á hilluna hjá Li Na

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Li Na vann tvö stórmót á ferlinum.
Li Na vann tvö stórmót á ferlinum. Vísir/Getty
Kínverska tenniskonan Li Na hefur lagt spaðann á hilluna vegna þrátlátra hnémeiðsla.

Li vann Opna ástralska meistaramótið í janúar, en hún hefur ekki keppt frá því að hún féll úr keppni í þriðju umferð á Wimbledon mótinu í júní. Li gekkst undir aðgerð á hné í júlí, en það var fjórða hnéaðgerðin hennar.

„Þetta er rétta ákvörðunin fyrir mig og mína fjölskyldu,“ sagði Li í opnu bréfi til aðdáenda sinna.

„Það tók mig nokkra erfiða mánuði að komast að þeirri niðurstöðu að vegna meiðslanna verði ég aldrei sá tennisspilari sem ég vil vera.

„Þótt ég hafi áður snúið til baka eftir aðgerð finnst mér hlutirnir vera öðruvísi nú. Ég hef lagt hart að mér til að koma til baka á fullum styrk, en núna, 32 ára að aldri, hefur líkaminn sagt stopp.“

Li vann tvö stórmót á ferlinum. Árið 2011 tryggði hún sér sigur á Opna franska meistaramótinu með því að vinna Francescu Schiavone í úrslitaleik og í byrjun þessa árs vann hún Dominiku Cibulkova í úrslitaleik Opna ástralska. Li komst hæst í annað sæti heimslistans.

Hún hefur þó ekki sagt algjörlega skilið við tennis-íþróttina, en hún ætlar að halda áfram að vinna að framgangi íþróttarinnar í heimalandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×