Innlent

Kennarar tala um viðsnúning stjórnvalda í menntamálum

Kennarasamband Íslands harmar að í nýkynntu fjárlagafrumvarpi ársins skuli enn vera þrengt að framhaldsskólum landsins. Stjórn sambandsins segir í ályktun að verið sé að skerða aðgengi ungs fólks að námi. Í ályktuninni segir að rekstur framhaldsskóla landsins sé fyrir löngu kominn að þolmörkum. Það skjóti því skökku við að á sama tíma og stjórnvöld afþakki tekjustofna sé boðaður áframhaldandi niðurskurður í skólakerfinu.

Guðríður Arnardóttir er formaður félags framhaldsskólakennara segir að þessi nýja stefna boði gjörbreytingu á íslenskri menntapólitík. „Það liggur fyrir og er beinlínis sagt í frumvarpinu, að nemendur sem eru yfir 25 ára munu ekki njóta forgangs í framhaldsskóla. Það kemur fram í fjárlagafrumvarpinu að það eigi að fækka um 4,7 prósent í framhaldsskólum landsins. Það mun leggjast af tvöföldum þunga á haustönnina 2015 því ég geri ekki ráð fyrir að skólarnir nái að bregðast við strax um áramót. Það liggur þá alveg fyrir að fjöldi nemenda, 25 ára og eldri, munu ekki eiga vísa skólavist í framhaldsskólum landsin,“ segir Guðríður.

„Þetta er auðvitað viðsnúningur í menntapólitík því það er ekki að sjá í þessu frumvarpi neinar mótvægisaðgerðir.“ Guðríður segir að kennarar séu búnir að óska eftir fundi með ráðherra og fulltrúum ráðuneytisins til þess að fara nánar yfir frumvarpið en hún segir að engin svör hafi borist frá stjórnvöldum. „Það kom hér út hvítbók í vor þar sem eru reifaðar ýmsar hugmyndir varðandi breytingar á menntakerfinu og ráðherra hefur sjálfur sagt að hvítbókin sé umræðugrundvöllur. Við höfum beðið eftir því að verða kölluð til samráðs og frekari stefnumótunarvinnu á grundvelli hvítbókar en það hefur ekkert samband verið haft við okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×