Enski boltinn

Starf Solskjærs í hættu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Solskjær á ekki sjö dagana sæla þessa stundina.
Solskjær á ekki sjö dagana sæla þessa stundina. Vísir/Getty
Það blæs ekki byrlega fyrir Ole Gunnar Solskjær þessa dagana. Liði hans Cardiff gengur lítið sem ekki neitt í Championship-deildinni og hávær orðrómur er um að Vincent Tan, hinn umdeildi eigandi félagsins, ætli að skipta um mann í brúnni.

Solskjær tók við velska liðinu í byrjun árs af Malky Mackay. Norðmanninum, sem gerði Molde tvívegis að norskum meisturum, tókst hins vegar ekki að snúa gengi Cardiff við og liðið féll að lokum eftir eins árs dvöl í ensku úrvalsdeildinni.

Byrjunin á þessu tímabili hefur verið erfið en Cardiff situr í 17. sæti Championship-deildarinnar með átta stig eftir sjö umferðir. Í gær tapaði Cardiff fyrir Middlesbrough á heimavelli með einu marki gegn engu, en púað var á lærisveina Solkjærs þegar þeir gengu af velli.

„Ef þú nærð ekki úrslitum, þá kemur pressa. Við bjuggumst ekki við að vera þar sem við erum eftir sjö leiki. Við vissum að ættum nokkra erfiða leiki í upphafi tímabils, en við bjuggumst við meira en einu stigi í síðustu fjórum leikjum“, sagði Solskjær eftir leikinn í gær.

„Þú verður að halda trúnni. Ég mun ekki sofa mikið út af þessum úrslitum og stöðu okkar í deildinni. En ég er bjartsýnismaður og ég gæti þurft að gera breytingar til að snúa gengi liðsins við“, sagði Solskjær ennfremur, en samkvæmt breskum fréttamiðlun mun hann ræða við stjórnarmenn Cardiff í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×