Fótbolti

Þjálfari Vestsjælland: Frederik getur orðið landsliðsmarkvörður

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Frederik Schram á æfingu með OB.
Frederik Schram á æfingu með OB. mynd/heimasíða OB
Frederik Schram, varamarkvörður U21 árs landsliðs Íslands í knattspyrnu, verður einnig varamaður hjá Vestsjælland, danska úrvalsdeildarliðinu sem hann gerði sinn fyrsta atvinnumannasamning við í gær.

Vestsjælland þurfti snögglega að leita að markverði þegar ThomasVilladsen meiddist út árið, og leist mönnum vel á Frederik sem er 19 ára gamall og var síðast á mála hjá OB í Óðinsvéum.

„Við fengum nokkra til æfinga ásamt Michael Hansen (knattspyrnustjóra félagsins) og markvarðaþjálfaranum og Frederik varð fyrir valinu. Hann er ungur og efnilegur markvörður sem hefur verið í ungmennalandsliðum Íslands,“ segir GertHansen, yfirmaður knattspyrnumála hjá Vestsjælland, við bold.dk.

Hann segir þó alveg klárt hver verji mark liðsins fram að áramótum í það minnsta. Það verður Daninn Thomas Mikkelsen sem er 31 árs gamall. „Frederik verður annar kostur. Thomas heldur sínu sæti er ég alveg öruggur um,“ segir Hansen.

Claus Fallentin, markvarðaþjálfari liðsins, er spenntur fyrir því að vinna með Frederik, sem hefur spilað með U17, U19 og U21 árs landsliðum Íslands þrátt fyrir að hafa aldrei búið á Íslandi.

„Hann er tekknískur miðað við aldur og virkilega góður. Það er engin spurning um að hann getur orðið aðalmarkvörður í dönsku úrvalsdeildinni og kannski landsliðsmarkvörður í framtíðinni,“ segir Fallentin á heimasíðu Vestsjælland.

Frederik Schram samdi út tímabilið og verður því samningslaus næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×