Erlent

Þvinganir vegna Úkraínu hertar

Samúel Karl Ólason skrifar
57 úkraínskum hermönnum var nýlega sleppt úr haldið aðskilnaðarsinna.
57 úkraínskum hermönnum var nýlega sleppt úr haldið aðskilnaðarsinna. Vísir/AFP
Nýjar viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins gagnvart Rússlandi hafa tekið gildi. Þvingununum er meðal annars ætlað að koma í veg fyrir lánveitingar til fimm ríkisbanka í Rússlandi. Einnig var 24 rússneskum embættismönnum á lista yfir menn sem ekki mega ferðast til Evrópu og eignir þeirra í Evrópu voru frystar.

Á vef BBC segir að þvingununum verði hugsanlega aflétt ef vopnahléið í Úkraínu heldur til lengdar.

Stjórnvöld í Rússlandi skipuleggja nú viðbrögð sín við þessum nýju þvingunum, sem lýst er sem óvinveittum. BBC hefur eftir háttsettum embættismanni í Moskvu að hugsanlega muni Rússar beita þvingunum á innflutning bíla frá Evrópusambandinu.

Barack Obama sagði í vikunni að Bandaríkin myndu einnig herða þvinganir sýnar gegn Rússlandi, en að frekari upplýsingar um þvinganirnar yrðu gefnar upp í dag.

Evrópusambandið og Bandaríkin hafa sakað stjórnvöld í Moskvu um að styðja við bakið á aðskilnaðarsinnum í Austur-Úkraínu, með vopnum, þjálfun og hermönnum. NATO segir að um þúsund rússneskir hermenn séu enn staðsettir í Úkraínu, þó þeim hafi fækkað undanfarið.

Þrátt fyrir mikla spennu á svæðinu skiptust aðskilnaðarsinnar og her Úkraínu á föngum í vikunni. Samkvæmt AP fréttaveitunni hefur 57 hermönnum verið sleppt fyrir 31 aðskilnaðarsinna. Fangaskiptin eru hluti af vopnahléi sem samþykkt var í Hvíta-Rússlandi fyrr í mánuðinum.

Þrátt fyrir fangaskiptin er gert ráð fyrir því að bæði aðskilnaðarsinnar og herinn haldi hundruðum manna föngnum. Frekari viðræður um fangaskipti standa nú yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×