Innlent

Tónlistarkennarar greiða atkvæði um verkfall á morgun

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Kjaraviðræður tónlistarkennara hefur staðið lengi. Myndin er frá mótmælum kennar við niðurskurði.
Kjaraviðræður tónlistarkennara hefur staðið lengi. Myndin er frá mótmælum kennar við niðurskurði. Vísir / Valgarður
Kennarar í Félagi tónlistarkennara greiða atkvæði á morgun um hvort leggja eigi niður störf og hefja verkfall. Kjaraviðræður hafa staðið lengi án þess að botn hafi fengist í þær.

„Við erum að reyna að leita allra leiða en því miður er svo komið að það er búið að boða til atkvæðagreiðslu um verkfall,“ segir Júlíana Rún Indriðadóttir, sem situr í samninganefnd Félags tónlistakennara.

„Við erum eina aðildarfélag KÍ sem ekki er enn búið að semja við. Ef við göngum að því sem okkur er boðið verðum við langt fyrir neðan aðra kennara og stjórnendur í Kennarasambandinu,“ segir Júlíana. „Við erum ósátt við að það sé enn ósamið við okkur. Við erum ekki nema fimm prósent af félagsmönnum Kennarasambands Íslands og við sitjum eftir.“

Júlíana segir að viðræðurnar hafi ekki gengið vel en viðræðurnar hafa staðið í nær níu mánuði. „Við sjáum okkur ekki annað fært en að kanna hug okkar félagsmanna til þess að beita því neyðarúrræði sem verkfall er, til að fylgja eftir okkar kröfum,“ segir hún. „Við finnum ekki mikinn samningsvilja hjá samninganefnd sveitarfélaganna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×