Bílar

Askja hefur selt 1.000 bíla á árinu

Finnur Thorlacius skrifar
Höfuðstöðvar Öskju.
Höfuðstöðvar Öskju.
Bílaumboðið Askja, umboðsaðili Mercedes-Benz og Kia Motors, afhenti á dögunum þúsundasta bíl fyrirtækisins á árinu. Alls hafa nú verið skráðir um 700 Kia bílar, um 200 Mercedes-Benz fólksbílar og um 100 Mercedes-Benz atvinnubílar á fyrstu rúmlega átta mánuðum ársins. Þúsundasti bíllinn sem afhentur var er af gerðinni Kia Sportage.

,,Við erum afar ánægð með góðan árangur Öskju á árinu. Askja er með 11,4% markaðshlutdeild af sölu nýrra bíla hér á landi fyrstu átta mánuði ársins. Kia heldur áfram mikilli sókn á Íslandi og er með um 700 bíla selda á árinu og rétt um 9% markaðshlutdeild og er þar með þriðji mest seldi bíllinn á Íslandi á þessu ári. Mercedes-Benz er í efsta sæti yfir mest seldu lúxusbíla ársins en alls hafa um 300 nýir fólks- og atvinnubílar frá þýska bílaframleiðandanum selst hér á landi á árinu,“segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Bílaumboðsins Öskju.

,,Góður árangur Kia er afar ánægjulegur en kemur ekki á óvart. Kia bílarnir hafa fengið mikið lof fyrir fallega hönnun, lága eyðslu og mengun. Kia býður 7 ára ábyrgð á öllum nýjum bílum sem er lengsta ábyrgð sem nokkur bílaframleiðandi býður upp á í heiminum. Mercedes-Benz hefur átt góðu gengi að fagna hér á landi þrátt fyrir erfiða tíma í bílasölu og á mjög dyggan aðdáendahóp. Mercedes-Benz hefur sent frá sér marga spennandi bíla að undanförnu og þeir nýjustu GLA og C-Class hafa fengið mjög góða dóma fyrir að vera sparneytnir og umhverfismildir sem er það sem kaupendur leita í mjög auknum mæli eftir,“ segir Jón Trausti.

Hann segir að mörgu þurfi að huga varðandi rekstur bílaumboðs og þá ekki einungis söluhlutann. ,,Þjónustan þarf líka að vera til fyrirmyndar og ég tel að það hafi tekist vel til hér hjá Öskju. Við höfum gott starfsfólk hér sem leggur metnað sinn í góða og persónulega þjónstu fyrir viðskiptavini sem skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli. Við höfum fyrsta flokks aðstæður hér á Krókhálsinum og erum með fullkomin bílaverkstæði, varahlutaþjónustu og rúmgóðan og bjartan sýningarsal fyrir Mercedes-Benz og Kia bíla,“ segir Jón Trausti ennfremur.






×