Erlent

Aukinn viðbúnaður í neðanjarðarlestarkerfi New York

Atli Ísleifsson skrifar
Bill de Blasio, borgarstjóri New York-borgar, reyndi að róa íbúa borgarinnar á blaðamannafundi á Union-torgi í gær.
Bill de Blasio, borgarstjóri New York-borgar, reyndi að róa íbúa borgarinnar á blaðamannafundi á Union-torgi í gær. Vísir/AFP
Lögregla og sprengjuhundar hafa verið meira áberandi í neðanjarðarlestarkerfi New York-borgar eftir að forsætisráðherra Íraks greindi frá því að leyniþjónusta landsins hafi komist á snoðir um áform IS um að gera árásir í New York og París.

„Þið munið taka eftir aukinni nærveru lögreglu en áður. Ekki vera hrædd. Ef eitthvað, þá ætti þetta að hafa róandi áhrif,“ sagði ríkisstjórinn Andrew Cuomo á fréttamannafundi á neðanjarðarlestarstöðinni Penn Station, en hann hafði sjálfur tekið neðanjarðarlestina á staðinn.

Á Union-torgi, tæpum tveimur kílómetrum í burtu og nokkrum mínútum síðar, flutti borgarstjórinn Bill de Blasio sambærilegan boðskap. „Ég er með einföld skilaboð til New York-búa. Það er engin aðsteðjandi eða trúverðug ógn sem steðjar að neðanjarðarlestarkerfinu okkar.“

Hvorki frönsk né bandarísk yfirvöld hafa eigin heimildir sem styðja fullyrðingar írakska forsætisráðherrans Haider al-Abadi.

Íslamska ríkið ræður yfir stórum hlutum af Írak og Sýrlandi og hefur Bandaríkjaher og Frakklandsher gert loftárásir á vígi samtakanna í báðum löndunum með það að augnamiði að brjóta samtökin á bak aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×