Varnarmaðurinn Paul Dummett tryggði Newcastle sæti í 4. umferð enska deildarbikarsins þegar hann skoraði sigurmark liðsins í framlengingu gegn Crystal Palace í kvöld.
Dwight Gayle náði forystunni fyrir Palace þegar hann skoraði úr vítaspyrnu á 25. mínútu eftir að Daryl Janmaat braut á Wilfried Zaha innan teigs.
Frakkinn Emmanuele Riviere jafnaði metin með sínu fyrsta marki fyrir Newcastle á 36. mínútu og þannig var staðan í hálfleik.
Riviere var aftur á ferðinni á 48. mínútu þegar hann skoraði úr vítaspyrnu sem Sammy Ameobi fiskaði.
Lærisveinar Neils Warnock gáfust hins vegar ekki upp og á lokamínútu leiksins jafnaði Sullay Kaikai metin í sínum fyrsta leik fyrir félagið.
Vítaspyrnukeppni virtist ætla að verða niðurstaðan þar til áðurnefndur Dummett kastaði sér fram og skallaði boltann í mark Palace á 112. mínútu í framlengingunni og tryggði Newcastle þar með farseðilinn í 16-liða úrslitin.
