Erlent

Halda áfram árásum á liðsmenn IS

Atli Ísleifsson skrifar
Úr áróðursmyndbandi IS sem birt var á YouTube í gær.
Úr áróðursmyndbandi IS sem birt var á YouTube í gær. Vísir/AFP
Bandarískar orrustuþotur hafa gert nýjar loftárásir á liðsmenn Írak og Sýrlandi. Talsmaður Bandaríkjahers segir átta farartæki hafa verið eyðilögð nærri Abu Kamal á landamærum Íraks og Sýrlands og tvö til viðbótar í Deir al-Zour í austurhluta Sýrlands.

Í frétt BBC segir jafnframt að árásir hafi verið gerðar á stöðvar IS vestur af íröksku höfuðborginni Bagdad og suðaustur af borginni Irbil, nærri yfirráðasvæði Kúrda. Í nótt voru gerðar árásir á skotmörk nærri tyrknesku landamærunum.

Sýrlenskir heimildarmenn hafa einnig sagt frá því að árásir hafi verið gerðar nærri kúrdíska bænum Kobane sem hefur verið setinn um af liðsmönnum IS síðustu daga.

Segja sjónarvottar að orrustuþoturnar hafi flogið frá Tyrklandi og yfir sýrlensku landamærin, en tyrkneskir embættismenn neita því að tyrkneskar herstöðvar og loftrými hafi verið notaðar í árásunum.

Bandalag Bandaríkjahers og herja fimm arabaríkja hófu loftárásir á IS innan landamæra Sýrlands á mánudaginn.

.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×