Enski boltinn

Gylfi Þór: Gott að vinna loksins Everton

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson var á skotskónum gegn Everton í 3. umferð enska deildabikarsins í gærkvöldi þegar Swansea komst áfram með 3-0 sigri.

Hafnfirðingurinn spilaði vel í leiknum, en Swansea var betri aðilinn og átti svo sannarlega skilið að vinna leikinn.

„Það er alltaf gott að komast í næstu umferð. Mér fannst við spila mjög vel og stýra leiknum frá fyrstu mínútu,“ sagði Gylfi Þór við heimasíðu Swansea eftir leikinn.

„Við skoruðum þrjú mörk, héldum hreinu og sköpuðum færi til að skora fleiri mörk, en í heildina erum við sáttir.“

Það var gott fyrir Swansea að komast aftur á sigurbraut eftir tvö töp í röð í deildinni gegn Chelsea og Southampton.

„Við spiluðum ekki illa í síðustu tveimur leikjum þrátt fyrir töp. Það var svolítið erfitt að missa mann af velli gegn Southampton. Okkur tókst næstum því að ná í stig þar, en við sýndum úr hverju við erum gerðir í kvöld.“

Sigurinn í gær var sá fyrsti hjá Swansea á Everton í sögu félagsins. „Það er gott að vinna þá loksins. Það mikilvæga er samt að vera í pottinum þegar dregið verður annað kvöld,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson.

Markið hans Gylfa má sjá í spilaranum hér að ofan og viðtalið á heimasíðu Swansea í heild sinni hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×