Enski boltinn

Arsenal féll úr leik | Gylfi skoraði í öruggum sigri Swansea

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexis Sanchez skoraði frábært mark, en það dugði ekki til gegn Southampton.
Alexis Sanchez skoraði frábært mark, en það dugði ekki til gegn Southampton. Vísir/Getty
Tíu leikir fóru fram í 3. umferð enska deildarbikarsins í kvöld.

Frábær byrjun Southampton á tímabilinu heldur áfram en liðið sló Arsenal út eftir 1-2 sigur á Emirates Stadium.

Skytturnar komust yfir á 14. mínútu með frábæru marki Alexis Sanchez, en Serbinn Dusan Tadic jafnaði metin sex mínútum seinna. Það var síðan bakvörðurinn Nathaniel Clyne sem skoraði sigurmarkið fimm mínútum fyrir hálfleik og tryggði Dýrlingunum sæti í 4. umferðinni.

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði annað mark Swansea í 3-0 sigri á Everton á Liberty Stadium eftir skelfileg mistök Sylvains Distin, varnarmanns Everton. Nathan Dyer og Marvin Emnes skoruðu hin mörk velska liðsins.

Varnarmaðurinn Marc Muniesa var hetja Stoke sem sló Sunderland úr leik með 1-2 sigri á útivelli. Spánverjinn skoraði bæði mörk Stoke eftir að Sunderland hafði komist yfir með marki Jozy Altidore.

Stjóralaust lið Cardiff steinlá fyrir Bournemouth á heimavelli, en staðan var orðin 0-3 eftir rúmlega hálftíma leik.

Framlenging stendur yfir í leik Liverpool og B-deildarliðs Middlesbrough, en staðan að loknum venjulegum leiktíma var 1-1.

Öll úrslit kvöldsins:

Arsenal 1-2 Southampton

Cardiff 0-3 Bournemouth

Derby 2-0 Reading

Leyton Orient 0-1 Sheffield United

Liverpool 1-1 Middlesbrough (enn í gangi)

MK Dons 2-0 Bradford

Shrewsbury 1-0 Norwich

Sunderland 1-2 Stoke City

Swansea 3-0 Everton

Fulham 2-1 Doncaster




Fleiri fréttir

Sjá meira


×