Handbolti

Aron Einar: Við erum stoltir að spila fyrir Cardiff

Tómas Þór Þórðarso skrifar
Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. vísir/getty
Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, og félagar hans í velska liðinu Cardiff mæta Bournemouth í þriðju umferð enska deildabikarsins í kvöld.

Vinni Cardiff leikinn er það þremur skrefum frá Wembley því við taka átta liða úrslitin komist Aron og félagar hans áfram.

Cardiff er stjóralaust eftir að Ole Gunnar Solskjær sagði upp störfum, en liðinu stýra Danny Gabbidon og ScottYoung, fyrrverandi leikmenn liðsins.

„Scott og Danny vita nákvæmlega hvaða þýðingu það hefur að klæðast Cardiff-treyjunni. Þeir hafa reynt að fá okkur til að spila fyrir stoltið. Æfingarnar hafa verið góðar. Nú þurfum við bara að halda áfram og fara að vinna leiki aftur,“ segir Aron við heimasíðu Cardiff.

Cardiff tapaði tveimur leikjum í röð gegn Norwich og Middlesbrough í ensku B-deildinni en náði í gott stig gegn Derby á útivelli í síðustu umferð þar sem Aron Einar skoraði glæsilegt mark með bakfallsspyrnu.

„Við verðum að láta lið hafa fyrir því að vinna okkur. Það höfum við ekki verið að gera að undanförnu. Það vita allir að við erum með gott lið og við getum unnið leiki. Það sem við þurfum til að láta allt smella er að menn standi saman og berjist fyrir hvorn annan,“ segir landsliðsfyrirliðinn.

„Við erum allir atvinnumenn og vitum hvers er ætlast af okkur. Við erum stoltir að spila fyrir Cardiff og ætlum að þjappa okkur saman. Við höfum gengið í gegnum góða og slæma tíma á undanförnum árum og gert það saman,“ segir Aron Einar Gunnarsson




Fleiri fréttir

Sjá meira


×