Innlent

Vonar að stjórnvöld hlusti á kröfur lækna

Hjörtur Hjartarson skrifar
„Verkfall að sjálfsögðu var eitthvað sem við tókum til af hreinni neyð,“ segir Sigurveig Pétursdóttir, formaður samninganefndar lækna. „Það er mikill mönnunarvandi og það er mikið álag á læknum, mikil ofvinna. Þetta er neyðarúrræði sem við grípum til. Við vonum ráðamenn þjóðarinnar heyri til okkar.“

Læknar samþykktu með yfirgnæfandi meirihluta fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir sem munu, að öllu óbreyttu, hefjast 27.október. Alls tóku 728 læknar þátt í atkvæðagreiðslunni sem gerir um 80 prósent þátttöku. 96 prósent þeirra sem greiddu atkvæði sögðust fylgjandi verkfallsaðgerðum. 15 læknar sögðu nei og 14 skiluðu auðu.

En þessi afgerandi kosning hlýtur að gefa ykkur aukið umboð og ykkar samningskröfum meira vægi.

„Hún sýnir að læknar eru samstíga. Þeir eru einhuga í þessu. Þeir sjá vandann. Það er auðvitað mikill stuðningur á bakvið okkur en það er jafnframt ótrúlega sorglegt að þurfa að grípa til þess,“ segir Sigurveig og vísar þar til verkfallsvopnsins.

Hvað heldur þú að muni gerast núna á næstu dögum? Heldur þú að þið náið að semja?

„Ég er bjartsýnismanneskja. Ég trúi á að ráðamenn þjóðarinnar hugsi sig um og gefi samninganefndinni aukið umboð,“ segir Sigurveig.

Ríkissáttasemjari mun boða til fundar á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×