Innlent

Tónlistarkennarar krefjast jafnréttis í launasetningu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigrún Grendal er formaður Félags tónlistarkennara.
Sigrún Grendal er formaður Félags tónlistarkennara. Vísir/Anton
Tónlistarskólakennarar og stjórnendur tónlistarskóla héldu samstöðufund í húsnæði Ríkissáttasemjara í dag en stéttin hefur boðað til verkfalls þann 22. október nk.

Í ályktun sem samþykkt var á fundinum er gerð sú krafa að laun og önnur kjör tónlistarkennara og stjórnenda í tónlistarskólum verði sambærileg við kjör annarra sérfræðinga og stjórnenda. Sú krafa sé í samræmi við kjarastefnu Kennarasambands Íslands sem Félag tónlistarkennara á aðild að.

Ályktunin vísar jafnframt í markmið Sambands íslenskra sveitarfélaga um jafnrétti í launasetningu. Það miði að því „að tryggja að sambærileg og jafnverðmæt störf séu launuð með sama hætti óháð kynferði, búsetu eða stéttarfélagsaðild.“

Félag tónlistarkennara fer fram á að fari verði eftir þessari stefnu og jafnrétti í launasetningu verði tryggt í nýjum kjarasamningum. Félagið skorar á sveitarfélög landsins „að mismuna ekki félagsmönnum Kennarasambands Íslands í launum eftir því í hvernig skólagerð þeir starfa.“  

Þá segir jafnframt í ályktun fundarins:  

„Tónlistarskólakennarar og stjórnendur tónlistarskóla geta með engu móti samþykkt að störf þeirra, menntun og reynsla sé ekki talin jafnverðmæt og störf annarra kennara og stjórnenda.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×