Þann 26. september mótmæltu stúdentarnir vinnuaðstæðum kennara í héraðinu Guerrero, en flestir þeirra voru í kennaranámi. Við mótmælin sló í brýnu á milli mótmælenda og lögreglumanna. Eftir mótmælin hurfu 43 stúdentar eftir að þau voru neydd upp í lögreglubíla. BBC segir að lögreglumennirnir hafi einnig skotið á rútur mótmælenda með þeim afleiðingum að sex féllu.
Samkvæmt Reuters fréttaveitunni voru minnst 34 lík í fjöldagröfinni og hafa þau verið brennd. Inaky Blanco, héraðssaksóknari, sagði fréttaveitunni að líklegt væri að einhverjir af mótmælendunum sem hurfu séu meðal líkanna. Hann bætti því við að tveir leigumorðingjar sem unnið hafa fyrir stórtæk glæpasamtök á svæðinu viðurkenndu að hafa myrt 17 af þeim 43 stúdentum sem týndust.
Þeir sögðu einnig að lögreglumenn hefðu hjálpað þeim við ódæðið.
Blanco sagði að 29 lögreglumenn hafi tekið þátt í fjöldamorðinu og að 26 þeirra hafi verið handteknir. Þeirra á meðal, Felipe Flores, æðsti lögreglumaður borgarinnar Iguala. Hann sagði marga lögreglumenn vera meðlimi glæpagengisins Guerreros Unidos.
Aðstoðarmaður Flores gaf skipunina um að handtaka stúdentana, en hann finnst nú hvergi. Þar að auki er borgarstjóri Iguala á flótta undan lögreglu, en hann er talinn hafa tekið þátt í ódæðinu.
