Enski boltinn

Gylfi: Hélt að Rory McIlroy vissi hver ég væri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi fagnar marki í leik með Swansea.
Gylfi fagnar marki í leik með Swansea. Vísir/Getty
Landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson er í ítarlegu viðtali í breska dagblaðinu The Guardian en það birtist á heimasíðu þess í kvöld.

„Þú mátt segja það ef þú vilt,“ sagði Gylfi við blaðamann Guardian um hvort að hann væri hinn íslenski David Beckham. Gylfi getur jú verið banvænn í aukaspyrnum, er þekktasti knattspyrnumaður Íslands í dag og í sambandi með fegurðardrottningu.

„Hann labbar inn í viðtalsherbergið einum klukkutíma og 45 mínútum of seint. Það væri öllu jöfnu pirrandi en hann er afar viðkunnalegur náungi og er með góða afsökun - hann var á æfingasvæðinu,“ skrifaði greinarhöfundur.

Gylfi skoraði sigurmark Swansea er liðið mætti Manchester United á Old Trafford í fyrstu umferð tímabilsins í haust. Eftir leikinn stóð hann fyrir utan leikvanginn þegar kylfingurinn Rory McIlroy, sem vann Opna breska meistaramótið í sumar, gekk skyndilega framhjá. McIlroy er dyggur stuðningsmaður Manchester United.

„Hann hafði verið á vellinum að sýna bikarinn sem hann fékk. Ég var bara að bíða eftir leigubíl þegar hann labbaði framhjá mér. Ég bað um mynd sem var auðsótt,“ sagði Gylfi.

„Hann óskaði mér alls hins besta og ég geri því ráð fyrir að hann vissi hver ég var. Nema þá að hann hafi bara viljað vera kurteis.“

Í viðtalinu er einnig fjallað um aðkomu hans að sjávarútvegsiðnaðinum hér á landi og hann rifjar upp skemmtilega sögu af því þegar faðir hans skammaði þáverandi knattspyrnustjóra Reading fyrir að taka Gylfa af velli. Þá segir hann frá dvölinni hjá Tottenham og endurkomunni til Swansea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×