Lífið

Hlunkarnir vigtaðir

Jakob Bjarnar Grétarsson skrifar
Fyrsta vigtun í megrunarkeppni þeirra Ragnars Sót Gunnarssonar og Gústafs Níelssonar fór fram í morgun, og voru tölurnar sláandi.

„Þetta voru laglegar tölur. Ég lagði strax af um 600 grömm með fyrstu sundferð. Það vantaði ekkert uppá það,“ segir Ragnar Sót Gunnarsson drjúgur með sig að vanda. Hann lætur það ekkert slá sig út af laginu þó tölur í vigtun í morgun hafi verið honum frekar í óhag. Hann er 130,15 kíló en keppinautur hans í mikilli megrunarkeppni sem hófst í morgun, Gústaf Níelsson, var ekki „nema“ 126,65.

„Þetta voru laglegar tölur,“ segir Ragnar.vísir/pjetur
Þeir nutu saltkjets í gær á BSÍ en nú tekur alvaran við. Hún sem er í afgreiðslu Sundlaugar Árbæjar hélt því fram fullum fetum við tíðandamann Vísis að „þessir menn, þeir synda aldrei.“ Ragnar segir þetta rétt vera. „En, nú er nýr lífsstíll í gangi. Við létum okkur hafa það að fara í kjölfarið á Laugaás þar sem við gúffuðum í okkur gratíneruðum plokkfisk í hádeginu.“

Eins og Vísir kynnti í gær, þá hafa þeir félagar góðfúslega fallist á að fjölmiðillinn fái að fylgjast með keppninni sem stendur til 12. desember, eða í næstu 10 vikur.

vísir/pjetur
„Nei, ég þarf bara að éta helmingi minna og drekka bara annan hvern vodkasnaps, þá held ég þetta komi nú allt saman í rólegheitum. Og rólegir göngutúrar með konunni,“ segir Ragnar spurður hvort skelfilegir tímar, við sult og seyru, blasi ekki við.

Svo er að heyra að þessi gamla íþróttastjarna sem var, vilji frekar hlífa sér en hitt við megrunina.

Næsta vigtun er eftir tíu daga og þá verður spennandi að sjá hvernig þeim miðar í kappi sínu við að fækka kílóunum.

Á vigtinni.vísir/pjetur

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×