Lífið

Mikilvægt að stundirnar séu sem flestar

Samúel Karl Ólason skrifar
„Það er mikilvægt að stundirnar séu sem flestar, því þær eru einu minningarnar sem að foreldrar koma til með að hafa um barnið sitt.“ Þetta segir móðir sem fæddi andvana stúlku. Hún hvetur fólk til að leggja söfnun samtakanna Gleym mér ei lið. Þar er safnað fyrir kælivöggu svo foreldrar í hennar stöðu geti dvalist með barninu í allt að 48 tíma eftir andvana fæðingu.

Valdís Eva Huldudóttir og þáverandi kærasti hennar áttu von á sínu fyrsta barni fyrir fimm árum. Mikil spenna var á heimilinu enda var tuttugu vikna sónarinn framundan þar sem þau ætluðu að fá að vita kyn barnsins. Þegar í sónarinn var komið var þó ljóst að ekki væri allt með feldu.

„Ég var rosa spennt eins og flestir foreldrar, að fá að sjá betri myndir af barninu og fá að vita allar mælingar og slíkt. Okkur datt ekki í hug að eitthvað væri að,“ segir Valdís. „Þá kemur í ljós að annað nýrað var eitthvað gallað. Það var ekki alveg vitað hvað það var.“

Þeim var sagt að koma aftur í sónar til að fylgjast með virkninni en þá kom í ljós að bæði nýrun voru óstarfhæf.

„Þau sögðu okkur að lífslíkurnar væru litlar sem engar og við stóðum frammi fyrir þeirri ákvörðun að enda meðgönguna eða láta reyna á hana. Við vissum í rauninni strax að það væri ekkert annað í stöðunni. Því við vildum ekki láta á þetta reyna fyrir þessar litlu líkur. Það voru engar líkur.“

Ákveðið var að enda meðgönguna en áður en endanleg ákvörðun var tekin, varð að bera málið undir nefnd innan spítalans til þess að leyfi yrði veitt.

„Ég var alltaf einhvern veginn að vonast til þess að nefndin myndi segja nei. Að við fengjum ekki leyfi til að enda meðgönguna. Af því að þá væri búið að taka þessa ákvörðun fyrir mig. Ég vildi ekki taka hana,“ segir Valdís.

Þann 23. nóvember 2009, fæddist Andrea Gunnarsdóttir.

„Fæðingin gekk vel og svo fékk ég hana í fangið. Þá var búið að hreinsa hana og setja í lítið teppi. Það var erfitt en það var yndislegt. Hún var mjög falleg og alveg fullkomin. Ég var rosalega stolt og mér leið rosalega vel. Það er erfitt að tala um að svona erfið stund geti líka verið svo falleg. Ég sagði það upphátt þá, að ég væri svo hamingjusöm. Að þetta væri fullkomið.“

Erfitt að kveðja

Þau fengu að vera með Andreu í um það bil klukkustund og Valdís segir það hafa verið erfitt.

„Það var mjög erfitt að kveðja hana. Ég hélt á henni og ég fann að hún var orðin köld. Ég vildi hafa hana hjá mér en ég vildi samt ekki halda á henni og gat hvergi lagt hana frá mér. Þetta var svolítið stuttur tími. Svo fékk pabbi hennar hana í fangið og sat með hana svolítið. Ég hefði viljað hafa hana lengur. Það var erfitt að kveðja.“

Styrktarfélagið Gleym mér ei stendur nú fyrir söfnun á sérstakri vöggu sem að gerir foreldrum andvana fæddra barna kleift að hafa barnið hjá sér lengur en nú er mögulegt.

„Foreldrar geta fengið barnið inn í herbergi til sín í vöggu sem kælir líkamann niður þannig að hægt sé að taka myndir og vera með barnið í allt að 48 tíma,“ segir Anna Lísa Björnsdóttir, stjórnarmeðlimur Gleym mér ei styrktarfélags. „Það fer eftir því hvað fólk vill. Hvenær það er tilbúið að kveðja.“

Valdís segist halda að slíkur búnaður hefði gert henni mjög gott.

„Ég held það sé rosalega mikilvægt fyrir foreldrana að fá að vera lengur með barninu sínu og einhver nefndi að það væri möguleiki að fá að baða barnið, klæða það og búa um það. Mér fannst erfitt að skilja við hana í fanginu á einhverjum öðrum og ég fékk ekki að klæða hana og búa um hana og svoleiðis. Ég hefði viljað hafa hana í svona vöggu.“

Vagga af þessar tegund kostar 400 hundruð þúsund krónur og styrktarfélaginu langar að safna fyrir tveimur slíkum. Einni fyrir kvennadeildina á Akureyri og eina fyrir kvennadeildina í Reykjavík.

„Því þetta gerist því miður um það bil einu sinni á viku. Að einhver missir í meðgöngu og gæti þurft að nota þetta,“ segir Anna Lísa. „Okkur langar gríðarlega mikið að koma þessu á koppinn sem fyrst.

Ótti fylgdi meðgöngu

Valdís var fljótt aftur ólétt og viðurkennir að ótti hafi fylgt sér í gegnum meðgönguna.

„Við fengum að vita strax að þetta væri ekki erfðasjúkdómur og líkurnar á að þetta gerðist aftur voru litlar sem engar. Þannig að það var í raun ekkert að óttast. En auðvitað er maður hræddur. Þetta er það hræðilegasta sem ég hef gengið í gegnum.“

Hún segir það hafa verið erfitt að vera glöð og hamingjusöm yfir því að verða ófrísk aftur.

„Það elti mig eitthvað samviskubit. Eins og maður sé að gleyma eða að þetta barn sé að koma í staðinn. Eins og hitt hafi bara aldrei gerst.“

Tæpu ári eftir fæðingu Andreu kom Alexandra í heiminn í nóvember 2010.

„Hún tala mikið um hana og nánast alltaf af fyrra bragði. Svo eru í leikskólanum auðvitað umræður um fjölskyldumynstur og systkini og fleira. Hún vill alltaf vera með í því. Hún hefur líka komið heim og grátið af því að einhver hefur sagt að hún eigi ekki systur, en hún segist eiga litla systur. Því hún varð aldrei stór."

15. október ár hvert er dagur sem tileinkaður missi á meðgöngu og barnamissi. Í tilefni af því er minningarstund í Bústaðarkirkju klukkan níu í kvöld.

Þeir sem vilja styrkja Gleym mér ei styrktarfélagið geta lagt inn á félagið. Kt: 501013-1290. Rknr: 111-26-501013. Einnig er hægt að kaupa Gleym mér ei skartgripalínuna á aurum.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×