Fótbolti

Del Bosque: EM 2016 verður væntanlega mitt síðasta mót

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Síðustu mánuðir hafa verið erfiðir hjá Del Bosque
Síðustu mánuðir hafa verið erfiðir hjá Del Bosque Vísir/Getty
Vicente del Bosque, þjálfari spænska landsliðsins í fótbolta, segir að EM 2016 verði að öllum líkindum hans síðasta stórmót með Spánverjum.

Del Bosque tók við landsliðinu af Luis Aragones fyrir sex árum og undir hans stjórn varð Spánn heimsmeistari 2010 og Evrópumeistari tveimur árum seinna.

Spánverjar féllu hins vegar úr leik í riðlakeppninni á HM í sumar, en liðið vann aðeins einn af þremur í Brasilíu. Byrjunin á undankeppni EM 2016 hefur heldur ekki verið neitt til að hrópa húrra yfir, en Spánverjar töpuðu fyrir Slóvakíu á útivelli á fimmtudaginn. Þetta var fyrsta tap Spánar í undankeppni HM eða EM í 36 leikjum, eða síðan 2006.

„Ég held að EM 2016 verði mitt síðasta stórmót með spænska landsliðinu,“ sagði Del Bosque í útvarpsviðtali.

„Við sjáum hvað gerist þegar við komust til Frakklands, en ég held að það verði mitt síðasta mót.“

Del Bosque sagði ennfremur að það væri ekkert til í þeim fréttum að markvörðurinn Iker Casillas ætli að leggja landsliðsskóna á hilluna, en hann hefur legið undir gagnrýni fyrir frammistöðu sína með Real Madrid og Spáni undanfarna mánuði.

„Ég las einhvers staðar frétt um að Casillas ætlaði að hætta en ég veit ekkert um það,“ sagði Del Bosque í áðurnefndu viðtali.

„Ég held að það sé ekkert hæft í þessum fregnum. Hann hefur ekki sagt mér neitt.“

Spánn er í öðru sæti C-riðils í undankeppni EM 2016 með sex stig eftir þrjá leiki.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×