Lífið

Edda Björgvins bregður sér í hlutverk Guðs

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Edda fer yfir línurnar með Björk Jakobsdóttur hjá Gaflaraleikhúsinu. Auðunn fylgist spenntur með.
Edda fer yfir línurnar með Björk Jakobsdóttur hjá Gaflaraleikhúsinu. Auðunn fylgist spenntur með. mynd/úr einkasafni
„Hún er fagmaður fram í fingurgóma. Við létum hana fá textann, hún las hann yfir þrisvar og negldi þetta,“ segir Auðunn Lúthersson, einn af höfundum og leikurum í sýningunni Heili hjarta typpi sem frumsýnd verður í Gaflaraleikhúsinu þann 24. október.

Auðunn skrifaði verkið með Ásgrími Gunnarssyni og leika þeir í sýningunni ásamt Gunnari Smára Jóhannessyni. Guð kemur við sögu í leikritinu og hreppti grínleikkonan Edda Björgvinsdóttir það hlutverk.

„Okkur vantaði einhvern með karisma Guðs og fórum að pæla í því sem grínhöfundar hver væri algjör goðsögn. Auðvitað var það Edda Björgvins sem býr yfir þessum ótrúlega persónuleika og er goðsögn í íslensku gríni og gamanleik. Hún var fullkominn Guð,“ segir Auðunn. Piltunum fannst sjálfsagt að Guð væri kona.

„Okkur fannst það vel við hæfi. Við spyrjum hana í leikritinu: Er Guð kona? Þá segir hún: Auðvitað er Guð kona.“

Sýningin Heili hjarta typpi verður frumsýnd, eins og áður segir, 24. október og fjallar um þrjár persónur - heila, hjarta og typpi, sem vinna að því að gera saman sýningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×