Lífið

Hætti í vinnunni og gerði „twerk“ að ævistarfi

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Jessica Vanessa, 22ja ára kona frá Flórída, hætti í vinnunni sem aðstoðarmaður kennara eftir að Vine-myndbönd hennar slógu í gegn. Í myndböndunum sést Jessica dansa „twerk“ sem söngkonan Miley Cyrus hefur verið þekkt fyrir að dansa.

Stór fyrirtæki höfðu samband við Jessicu og buðu henni háar fjárhæðir ef hún minntist á vörur þeirra í myndböndunum en hún er með um tvo milljón fylgjendur á Vine. Jessica hikaði ekki við að hætta í vinnunni.

„Ég þyrfti að vinna í fjóra mánuði sem aðstoðarmaður kennara til að þéna það sem ég þéna núna á sex sekúndum,“ segir hún í samtali við Daily Mail.

„Þetta er klárlega blessun. Ég keypti nýjan bíl, greiddi hann upp og náði að greiða upp námslánin mín,“ bætir hún við. 

Jessica er mjög opin en hún segir að hún hafi ekki alltaf verið ófeimin.

„Ég var mjög feimin þegar ég var yngri og mér fannst ekki gaman að dansa fyrir framan fólk. Síðan byrjaði ég í nýjum félagsskap og fékk meira sjálfstraust. Ég var orðin partístelpa þegar ég byrjaði í miðskóla,“ segir hún. 

En athyglinni fylgir neikvætt umtal.

„Ókunnugir kalla mig hóru, fólk kallar mig feita og ljóta og fólk hefur sagt ýmislegt ljótt við mig. Fólk vill skilgreina mig sem hóru fyrir að „twerka“ en þetta er bara tegund af dansi. Ef fólk væri víðsýnara myndi það skilja það.“

Jessica segist njóta stuðnings frá fjölskyldu sinni.

„Þau eru mjög víðsýn og horfa ekki á þetta á kynferðislegan hátt. Þau líta ekki á þetta sem lítillækkandi. Þau styðja mig mikið. Ég get alveg sýnt ömmu minni „twerk“-myndböndin. Hún er villt og brjáluð og myndi örugglega gera þetta með mér.“










Fleiri fréttir

Sjá meira


×