Innlent

Drukkinn á 178 km hraða: Farþegi varanlega lamaður eftir bílveltu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Maðurinn ók á um það bil 178 km hraða eftir Reykjanesbraut.
Maðurinn ók á um það bil 178 km hraða eftir Reykjanesbraut. vísir/gva
Ríkissaksóknari höfðar nú mál á hendur 34 ára karlmanni sem gefið er að sök að hafa sest ölvaður undir stýri, ekið langt umfram leyfilegan hámarkshraða og þar með stofnað á ófyrirleitin hátt lífi farþega og annarra vegfaranda í verulega hættu. Fjórir farþegar voru í bílnum og er einn þeirra í dag varanlega lamaður.

Manninum er gefið að sök að hafa í mars 2012 ekið eftir Reykjanesbraut á 178 kílómetra hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er 80 kílómetrar.  Missti hann stjórn á bifreið sinni og valt hún við Kaldárselsveg.  Allir fjórir farþegar bílsins slösuðust alvarlega.

Frá vettvangi hinn 4. mars 2012.vísir/lögreglan
Einn farþega bílsins kastaðist út úr bifreiðinni og hlaut hann alvarlegan mænuskaða sem hafði í för með sér varanlega lömun, umfangsmikla áverka á milta, opin sár og beinbrot víðs vegar um líkamann.

Þá hlaut annar meðal annars opið sár í hársverði, brot á kinnbeinum, kjálkabeini, brjósthryggjarlið og hálshryggjarlið. Krefjast þeir samtals sex milljónum króna í miskabætur.

Ríkissaksóknari fer fram á að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×