Lífið

Átt þú einhvern jákvæðan neista í brjósti?

Hjalti Jón Sverrisson
Hjalti Jón Sverrisson Mynd/Guðmundur Einar
Breytendur á Adrenalíni er hópur ungs fólks sem starfar í Laugarnesi og byggir á hugmyndafræði Changemaker, en í kvöld klukkan 18.00 ætlar hópurinn í meðmælagöngu um Laugarneshverfi. 

Göngunni er ætlað að fagna þeim jákvæða sköpunarkrafti og þeim möguleikum sem búa með okkur öllum. Lagt verður af stað frá Laugarneskirkju.

Hjalti Jón Sverrisson, er einn skipuleggjenda:

"Mótmælagöngur eru öllu algengari enda oft ekki vanþörf á. Við ætlum aftur á móti þennan dag að virkja jákvæðan drifkraft okkar, fagna því sem vel er gert og möguleikunum til að gera enn betur, því sannarlega eru möguleikarnir til staðar.

Hér er því tækifæri fyrir alla þá sem eiga einhvern jákvæðan neista í brjósti - sama hve smár hann er - til að fagna í hversdagsins amstri. 

Allir eru hjartanlega velkomnir til að taka þátt í göngunni."

Breytendur á Adrenalíni munu einbeita sér að því að mæla með: 

- Möguleikum til breytinga í nálgun okkar gagnvart umhverfismálum með jákvætt hugarfar að vopni.

- Frelsi allra til að lifa sem jafningjar og vera frjáls í ást sinni og atferli. 

- Jákvæðum samskiptum sem byggjast á gagnkvæmri virðingu, þar sem fjölbreytileikanum er fagnað.

- Því að við göngumst við sjálfum okkur eins og við erum og fögnum sérleika okkar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×