Fótbolti

Heimir: Förum rólegir í Hollandsleikinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Riga skrifar
Heimir Hallgrímsson, annar landsliðsþjálfara Íslands, sagði eftir 3-0 sigurinn á Lettlandi í kvöld að heimamenn hafi verið grimmari en hann bjóst við fyrirfram. Hann segir að þeir hafi verið heppnir að hafa sloppið við frekari meiðsli leikmanna en raunin varð.

„Þeir spiluðu fastar en við bjuggumst við og við teljum okkur heppna að komast óskaddaðir frá þessum leik, þó svo að einhverjir séu eitthvað lemstraðir. Margar af þessum tæklingum hefðu vel getað orðið til þess að við hefðum þurft að kalla inn nýja leikmenn fyrir næsta leik.“

„Við erum í fyrsta lagi afar ánægðir með að hafa skorað þrjú mörk á móti þeim. Það var smá heppni að þeir misstu mann út af en við erum ákaflega ánægðir með að haldið hreinu í tveimur leikjum.“

Hann segir að leikmennirnir hafi ekki verið að gera það sem þjálfararnir báðu þá um að gera í fyrri hálfleik.

„Þeir voru mikið að spila stutt og þá gerist lítið þegar verið að spila gegn varnarmúr. Það verður að brjóta leikinn betur upp en svo. Það sást svo mikill munur á sóknarleiknum okkar í seinni hálfleik og enn betur eftir að þeir urðu manni færri.“

„Ef við hefðum spilað eins í síðari hálfleik og við gerðum í þeim fyrri. Þetta hefði getað farið mun verra enda fengu þeir færi sem þeir hefðu getað nýtt sér. Þetta lið á eftir að taka stig í þessum riðli, sérstaklega á þessum velli.“

„Nú fáum við Hollendinga næst og það er virkilega þægilegt að vera komnir með sex stig og þurfa ekki að vinna þann leik. Við getum farið rólegir í þann leik. Við verðum með 0-0 stöðu í upphafi og við viljum halda henni sem lengst. Þá er alltaf möguleiki á að stela sigri í þeim leik.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×