Fótbolti

Ragnar: Svona lagað endar alltaf með marki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Varnarmaðurinn Ragnar Sigurðsson segir að það hafi verið erfitt að eiga við vel skipulagðan varnarleik Lettlands. Ísland hafði þó betur, 3-0, en öll mörkin komu í síðari hálfleik og það eftir að heimamenn misstu mann af velli með rautt spjald.

„Þetta var þolinmæðisverk. Lettarnir voru gríðarlega skipulagðir og það var ekki séns að komast í gegnum miðjuna hjá þeim. Við þurftum því að setja langar fyrirgjafir á þá til að koma fyrsta markinu inn,“ sagði Ragnar.

„Það var frábært tilfinning þegar markið kom. Þeir duttu alveg niður í vítateig eftir rauða spjaldið og við sóttum og sóttum. Það endar alltaf með marki.“

Ragnar segir að það hafi verið erfitt að halda einbeitingunni eftir að hafa komist 2-0 yfir en Lettarnir sköpuðu sér nokkur færi þá. Ari Freyr Skúlason bjargaði meðal annars á línu.

„Við hættum að verjast saman sem lið. Það er dæmigert að svona lagað gerist þegar við erum 2-0 yfir.“

„En þetta er draumabyrjun í riðlinum og alltaf gaman að halda hreinu fyrir okkur varnarmennina. En þetta þýðir ekki neitt ef við ætlum að spila eins og aular á mánudaginn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×