Lífið

Vonarstræti kom strákunum okkar í góðan gír fyrir leik

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Íslenska landsliðið í knattspyrnu mætir Lettum á Skonto-leikvanginum í Riga í kvöld.

Strákarnir í landsliðinu tóku því rólega í gærkvöldi og horfðu á íslensku kvikmyndina Vonarstræti eftir Baldvin Z til að slaka á.

Eins og myndirnar hér fyrir neðan sýna var einbeitingin mikil hjá strákunum þegar þeir horfðu á myndina og gefa þeir henni toppeinkunn.

„Frábær í alla staði. Setur nýja standarda í íslenskri kvikmyndagerð,“ segir Alfreð Finnbogason og Aron Einar Gunnarsson tekur í sama streng.

„Frábær mynd. Mjög vel leikin. Ég bið að heilsa Baldvini.“

Rúrik Gíslason segir Vonarstræti eina af þremur bestu, íslensku myndum sem hann hafi séð og markmaðurinn Hannes Þór Halldórsson, sem er einnig leikstjóri, var yfir sig hrifinn.

„Virkilega góð mynd. Flott tónlist, vel skrifuð, vel skotin og frábærlega leikin,“ segir hann.

„Við þökkum kærlega fyrir sýninguna. Þetta kom mönnum í góðan gír!“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×