Handbolti

Snorri Steinn: Stefni ekki að því að skora meira en Guðjón Valur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Snorri fer framhjá Guðjóni Val á æfingu landsliðsins í gær.
Snorri fer framhjá Guðjóni Val á æfingu landsliðsins í gær. vísir/stefán
Snorri Steinn Guðjónsson, leikstjórnandi íslenska karlalandsliðsins í handbolta, hefur öðlast nýtt líf hjá liði sínu Sélestad í Frakklandi.

Vegna meiðsla hjá Sélestad þarf Snorri Steinn að sinna öðruvísi hlutverki en Íslendingar hafa séð hann spila með landsliðinu undanfarin ár; hann þarf að skjóta mun meira.

Snorri Steinn raðar nú inn mörkum í Frakklandi og er búinn að skora 57 mörk í sex leikjum eða 8,14 mörk í leik. Þá er hann með skotnýtingu upp á 61,9 prósent sem er ekki amalegt.

Það var létt yfir Snorra á blaðamannafundi í dag, aðspurður hvort hann myndi nokkuð gefa boltann í fyrsta leik Íslands í undankeppni EM 2016 annað kvöld gegn Ísrael. „Nei, ég er alveg hættur því,“ svaraði hann og uppskar hlátrasköll í salnum.

„En að öllu gamni slepptu þá er ég bara í öðruvísi hlutverki hjá mínu liði úti þannig ég býst ekki við að taka 15 skot á morgun. En ef ég skora 15 mörk úr 15 skotum þá verður það bara fínt,“ sagði Snorri.

Hann sat einu sæti frá Guðjóni Val Sigurðssyni, fyrirliða Íslands, sem varð markahæsti leikmaður í sögu landsliðsins í sumar og er þekktur fyrir það að raða inn mörkum í landsleikjum.

„Ég er ekkert búinn að gefa það út að ég ætla að skora meira en Guðjón Valur eða neitt svoleiðis,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson léttur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×