Enski boltinn

Berahino minnir stjórann á Wayne Rooney

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Saido Berahino.
Saido Berahino. Vísir/Getty
Saido Berahino hefur byrjað tímabilið vel með West Bromwich Albion og knattspyrnustjórinn Alan Irvine er sáttur með sinn mann sem hann segir hafa allan pakkann.

Saido Berahino skoraði jöfnunarmark WBA á móti Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni um helgina og er markahæsti Englendingurinn í ensku úrvalsdeildinni með sjö mörk í fyrstu níu umferðunum.

"Ef þú ætlar að verða toppleikmaður þá þarftu að hafa allan pakkann. Það tala allir um tækni, tilfinningu fyrir taktík, líkamlega þáttinn og sálfræðiþáttinn. Þú getur ekki orðið toppleikmaður nema að þú sért öflugur á öllum þessum sviðum," sagði Alan Irvine við Sky Sports og bætti svo við:

"Saido hefur mikið af þessum þáttum en hann er ennþá það ungur að þetta gæti farið í báðar áttir hjá honum. Það síðasta sem maður vill sá er að eitthvað hafi neikvæð áhrif á einhverja þessa þætti. Sálfræðiþátturinn er þarna stærstur. Ég hef verið heppinn að fá að vinna með hæfileikaríkum ungum leikmönnum í gegnum tíðina og Saido minnir mig á Wayne Rooney," sagði Irvine.

"Rooney er ekki sá eini sem hann minnir mig á en Everton hefur náð góðum árangri með að taka sextán ára drengi inn í aðalliðið sitt. Það er mikilvægt að eyða tíma í að tala við þessa stráka og passa upp á að allt sé í réttum horfum," sagði Irvine.

Saido Berahino er 21 árs gamall síðan í ágúst en hann skoraði 5 mörk í 32 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð en er núna kominn með 7 mörk í 9 leikjum. Hann hefur ennfremur skorað 10 mörk í 13 leikjum með enska 21 árs landsliðinu frá og með árinu 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×