Innlent

Landspítalinn ætlar að hefja innflutning á brjóstamjólk

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/getty
Fyrirburar á Íslandi munu á næstunni njóta góðs af danskri brjóstamjólk en vökudeild Landspítalans hefur gert samning þess efnis að brjóstamjólkin verði innflutt fyrir þær konur sem sjálfar geta ekki mjólkað. Þetta kemur fram á vef Guardian þar sem haft er eftir Þórði Þorkelssyni, yfirlækni á vökudeild Landspítalans, að þau ensími sem finnist í móðurmjólkinni geti hjálpað til þegar meltingarvegur nýbura er óþroskaður og forðað börnum frá hinum ýmsu sýkingum.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) mælir með svokölluðum mjólkurbönkum þegar móðurmjólkin er ekki til staðar. Slíkir bankar hafa verið starfræktir um heim allan allt frá árinu 1909 eða allt frá því að fyrsti bankinn var stofnaður í Austurríki. Ísland er í dag eina norræna þjóðin sem er ekki með slíkan banka.  Þórður segir það ekki standa til að setja slíkan banka á laggirnar hér á landi.

„Það er ekki hagkvæmt að vera með mjólkurbanka á landinu en Ísland er lítið land og það fæðast einungis um 250 fyrirburar á hverju ári. Flestar mæður á Íslandi mjólka og því er lítil þörf á mjólkurbanka hér á landi,“ segir Þórður.

Hvidovre spítali sem er nærri Kaupmannahöfn safnar um fimm þúsund lítrum af brjóstamjólk á hverju ári en þar geta nýbakaðar mæður selt lítrann af mjólkinni á um 200 danskar krónur, eða á rúmlega 4000 íslenskar krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×