Innlent

Byssurnar um borð í skipin

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Forstjóri Landhelgisæslunnar segir byssurnar minni en þau vopn sem Gæslan á fyrir og eru orðin úrelt.
Forstjóri Landhelgisæslunnar segir byssurnar minni en þau vopn sem Gæslan á fyrir og eru orðin úrelt. Vísir/Vilhelm
Landhelgisgæslan ætlar að nota þær eitt hundrað hríðskotabyssur sem hún fékk frá Norðmönnum um borð í skipunum sínum og í varahluti. Forstjóri Gæslunnar segir byssurnar minni en þau vopn sem Gæslan á fyrir og eru orðin úrelt.

Það var í febrúar á þessu ári sem að Landhelgisgæslan og lögreglan fengu 250 MP5-hríðskotabyssur frá norska hernum. Gæslan gerir ráð fyrir að þurfa ekki að greiða fyrir byssurnar þar sem tíðkast hefur hingað til að herinn hafi ekki rukkað fyrir álíka sendingar til Íslendinga. Lögreglan fékk hundrað og fimmtíu byssur en Landhelgisgæslan eitt hundrað.



Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, segir byssurnar sem Gæslan fékk verða notaðar í stað vopna sem hún á fyrir. ,,Við reiknum með því að þetta gangi til þess að endurnýja okkar vopnabúnað og sömuleiðis að eiga varahluti því við gerum ekki ráð fyrir að kaupa eða fá gefins vopn á næstu áratugum aftur. Þannig að við teljum þetta vera nauðsynlegt til þess að eiga varahluti og endurnýja gömul vopn."

Hann segir Gæsluna alltaf hafa haft yfir álíka vopnum að ráða.

,,Landhelgisgæslan hefur haft yfir hríðskotabyssum að ráða allt frá upphafi. Þessar byssur eru allnokkuð minni heldur en þau vopn sem við eigum núna en eru orðin úrelt og varasöm. Þannig að þetta er nú svona frekar niður á við ef eitthvað er."

Þá segir hann byssurnar verða notaðar um borð í varðskipunum.

,,Það er náttúrulega meginforsendan að við getum haft eitthvað um borð í skipunum til þess að verja okkur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×