Innlent

Einföld sala sem hefur endað í hneyksli

Heimir Már Pétursson skrifar
Samningur um kaupin hafi verið undirritaður hinn 17. desember í fyrra.
Samningur um kaupin hafi verið undirritaður hinn 17. desember í fyrra. Vísir/Vilhelm
Vefur norska dagblaðsins Verdens Gang segir í dag að það sem átti að vera einföld sala á notuðum byssum frá norska hernum til Landhelgisgæslunnar á Íslandi hafi endað í hneyksli sem í versta falli geti orðið ríkisstjórn Íslands að falli. Fram kemur í greininni að samningur um sölu vopnanna hafi verið undirritaður hinn 17. desember í fyrra.

Í grein Verdens Gang segir að byssumálið hafi valdið miklu umróti á Íslandi að undanförnu en hvorki Alþingi né almenningi á sögueyjunni hafi verið kunnugt um kaup Landhelgisgæslunnar á 250 notuðum hríðskotabyssum frá nosrka hernum. En um sé að ræða hríðskotabyssur af gerðinni Heckler & Koch MP5 sem framleiddar hafi verið í Þýskalandi frá árinu 1966.

Þá greinir Verdens Gang frá því að stjórnvöld á Íslandi kannist ekki við að hafa keypt vopnin heldur þegið þau að gjöf frá norska hernum. Sumir Íslendingar telji að hríðskotabyssurnar hafi átt að vera sárabót fyrir að Norðmenn ætluðu að hætta að gefa Íslendingum jólatré.

Haft er eftir talsmanni norska hersins að það sé rugl. Norski herinn hafi selt Landhelgisgæslunni 250 hríðskotabyssur í fyrra fyrir 625 þúsund norskar krónur eða sem svarar til 11,5 milljóna íslenskra króna. Samningur um kaupin hafi verið undirritaður hinn 17. desember í fyrra. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×