Lífið

Leggur baráttunni gegn ebólu lið

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Hjalti Parelíus listamaður ákvað að gefa ágóðann af verkinu Dóttir regnbogans til neyðarsöfnunar UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna á Íslandi gegn útbreiðslu ebólu. UNICEF hóf neyðarsöfnun gegn útbreiðslu ebóluveirunnar snemma í síðustu viku og segir Hjalti hafa séð sig knúinn til að leggja sitt af mörkum. Við séum öll af sömu plánetunni.

„Ástæða þess að mig langar að leggja Unicef lið er hreinlega sú að mig langar að hjálpa á þann hátt sem ég get. Við verðum að hætta að hugsa um okkur í dálkum, og þegar ég tala um dálka á ég við um þjóðerni og trúfélög. Ef fólk færi að hugsa að við séum af sömu plánetunni með sömu hagsmuni í huga yrði heimurinn kanski að betri stað fyrir marga. Ég lít jú á mig sem Íslending en fyrst og fremst er ég jarðarbúi og mennskur. Og þannig horfi ég á fólk í kringum mig,“ segir Hjalti en verk hans má sjá í Reykjavík Modern Art Gallery á Skúlagötu 32 til 34.

Hann segist hafa tekið eftir hröðum viðbrögðum UNICEF við ebólufaraldrinum og viljað leggja baráttunni lið með þeim hættu sem hann gæti.

Dóttir regnbogans.
„Það skiptir mig engu máli hvort þú ert Íslendingur, Japani eða frá Síerra Leóne, ég finn sömu samkennd því við erum af sama kyni. Því tel ég það mína mannlegu skyldu að hjálpa. Og ég sé að starf UNICEF skiptir miklu máli og þau hafa brugðist hratt við neyðinni sem hefur skapast vegna ebólufaraldursins og því vildi ég leggja þeim lið.“

Ebóluveiran hefur orðið 4.877 manns að bana samkvæmt tölum frá 19. október og eru staðfest tilfelli orðin 9.935. Á fimmtudagskvöldið bárust fréttir af fyrsta tilfellinu í Malí sem er nú sjötta landið í Vestur-Afríku þar sem ebóla kemur upp. Sömuleiðis er búið að staðfesta að bandarískur læknir sem var við störf í Gíneu hafi smitast, hann fær nú meðferð í New York.

„Við erum mjög ánægð með þetta góða fordæmi og spennandi framlag Hjalta til UNICEF. Það er gaman að sjá fólk beita nýjum aðferðum og fara nýjar leiðir við að leggja okkur lið og fyrir það erum við afar þakklát. Ebólufaraldurinn breiðist hratt út og það þarf samstill átak allra til þess að stöðva megi útbreiðslu hans,“ segir Bergsteinn Jónsson framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. 

Hægt er að leggja neyðarsöfnun UNICEF í baráttunni gegn ebólu lið með því að senda sms-ið STOPP í númerið 1900 (1.900 krónur) og styðja þannig við neyðarhjálp UNICEF.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.