Innlent

Taka ekki við byssunum ef þeir þurfa að borga

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jón F. Bjartmarz
Jón F. Bjartmarz
Í fréttatilkynningu sem embætti ríkislögreglustjóra hefur sent frá sér kemur fram að Landhelgisgæslan hafi haft milligöngu um að vopnin kæmu til landsins en aldrei hafi staðið til að borga fyrir þau. Mun embætti Ríkislögreglustjóra ekki taka við þeim frá Landhelgisgæslunni, ef hún þarf að bera af því kostnað.

Í tilkynningunni segir einnig að embættinu hafi ekki verið kunnugt um það fyrr en í gærkvöldi að samningur hafi verið gerður í desember síðastliðnum vegna vopnanna en talsmaður norska hersins greindi frá samningnum í kvöld.

Þá segir ennfremur:

„Í janúar 2014 bárust [...] upplýsingar frá Landhelgisgæslunni um að vopnin væru væntanleg og lögreglan gæti fengið allt að 150 stk. MP5. Vopnin eru  hjá Landhelgisgæslunni og hefur ríkislögreglustjóri ekki tekið við þeim né samþykkt kaup á þeim. Hins vegar fékk embættið afnot af  35 stk. við æfingar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og hefur þeim verið skilað.“

Tilkynninguna má sjá hér í heild sinni:

Embætti ríkislögreglustjóra stendur við yfirlýsingar um að afhending MP5 vopna til lögreglunnar hafi átt að vera lögreglunni að kostnaðarlausu.

Norsk sendinefnd á vegum þarlendra varnarmálayfirvalda kom til landsins í júní 2013 í boði utanríkisráðuneytisins og heimsótti af því tilefni m.a. æfingaaðstöðu lögreglu á Keflavíkurflugvelli ásamt fulltrúum utanríkisráðuneytisins og Landhelgisgæslunnar.  

Sendinefndin upplýsti að Norðmenn hefðu afhent Landhelgisgæslunni öryggisbúnað og rætt var um að lögreglunni stæði mögulega til boða að fá til eignar MP5 hríðskotabyssur, lögreglunni að kostnaðarlausu. Um væri að ræða vopn sem verið væri að afleggja hjá norska hernum. Ekki stóð til að greiða þyrfti fyrir vopnin.

Embætti ríkislögreglustjóra lýsti yfir áhuga á að fá fyrir lögregluna slík vopn og norsk varnarmálayfirvöld  upplýstu í framhaldinu að senda þyrfti fyrirspurn „forespörsel om overtagelse av materiell“ til „Forsvarssjefen“ með beiðni um að málið yrði tekið til skoðunar. Bréf þessa efnis var sent 15. ágúst 2013 og orðalag þess samkvæmt leiðsögn Norðmanna. Um fyrirspurn var að ræða sem ekki barst svar við frá „Forsvarssjefen“. Fyrirspurn embættisins í tölvupósti um hvort þessu kynni mögulega að fylgja kostnaður, ef til þess kæmi að lögreglan fengi vopnin án endurgjalds, var heldur ekki svarað.

Í janúar 2014 bárust síðan upplýsingar frá Landhelgisgæslunni um að vopnin væru væntanleg og lögreglan gæti fengið allt að 150 stk. MP5. Vopnin eru  hjá Landhelgisgæslunni og hefur ríkislögreglustjóri ekki tekið við þeim né samþykkt kaup á þeim. Hins vegar fékk embættið afnot af  35 stk. við æfingar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og hefur þeim verið skilað.

Embætti ríkislögreglustjóra var ekki kunnugt fyrr en í gærkvöldi um samning sem talsmaður norska varnarmálaráðuneytisins upplýsti um í kvöldfréttum RÚV að hefði verið gerður þann 17. desember 2013.

Aldrei stóð til af hálfu lögreglunnar að kaupa vopnin og mun embætti ríkislögreglustjóra ekki taka við vopnunum sem lögreglunni stóð til boða fyrir milligöngu Landhelgisgæslunnar, þurfi lögreglan að bera af því kostnað.


Tengdar fréttir

Það sem við vitum um byssurnar frá norska hernum

Landhelgisgæslan hafði milligöngu um afhendingu á 150 MP5 hríðskotarifflum frá norska hernum til ríkislögreglustjóra. Formenn stærstu stjórnarandstöðuflokkanna gagnrýna harðlega að svo mikið magn vopna hafi verið afhent lögreglunni án sérstaks samþykkis ráðherra eða umræðu í þinginu.

Aukið við vopnabúnað lögreglunnar

Verið er að auka við vopnabúnað íslensku lögreglunnar. Stefnt er að því að allir lögreglubílar landsins verði búnir Glock 17-hálfsjálfvirkri skammbyssu og MP5-hríðskotabyssu.

Stefnubreyting ef vopna á lögregluna

Fyrrveraandi innanríkisráðherra segir það hafa verið rætt í mörg ár hvort vopna ætti almennu lögregluna. Yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra segir ekki búið að ákveða að hafa vopn í öllum lögreglubílum.

MP5 sögð öruggari en skammbyssa

Ekkert lögregluembættanna hefur enn farið fram á að fá MP5-hríðskotabyssur til afnota en yfirmaður lögreglunnar á Akureyri segir hríðskotabyssurnar öruggari en skammbyssur og því verði líklega farið fram á að fá þær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×