Viktor Bjarki Arnarsson, leikmaður Fram, spilar ekki með liðinu í 1. deild karla í fótbolta á næstu leiktíð, samkvæmt heimildum Vísis.
Viktor Bjarki, sem gekk í raðir Fram frá KR 2012, nýtti sér uppsagnarákvæði í samningi sínum og yfirgefur Safamýrarliðið eftir tvö ár í herbúðum þess.
Hann spilaði 40 leiki í Pepsi-deildinni fyrir Fram og skoraði fimm mörk, en þar áður var hann í herbúðum KR þar sem hann varð Íslandsmeistari árið 2011.
Viktor Bjarki er nú samningslaus, en hann hefur áður spilað fyrir Fylki og uppeldisfélag sitt Víking í efstu deild. Hann var kosinn besti leikmaður ársins 2006 og hélt eftir það í atvinnumennsku til Noregs.
Hann er fimmti leikmaðurinn sem yfirgefur Fram á skömmum tíma, en áður höfðu Arnþór Ari Atlason, HafsteinnBriem, GuðmundurMagnússon og Jóhannes Karl Guðjónsson farið frá Frömurum.
Þrátt fyrir þennan flótta sagðist Sverrir Einarsson, formaður Fram, áhyggjulaus í viðtali við Vísi í síðustu viku.
